Umhverfisverndarsinnar fagna því að Landsvirkjun ætli að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun að nýju. Raforkan verður meðal annars seld álverinu í Straumsvík, sem er að undirbúa aukna framleiðslu í verinu með tæknilegum endurbótum.

Fyrstu útboðsgöng vegna framkvæmdanna verða send út eftir tvo daga.

Búðarhálsvirkjun verður áttatíu megavött og ný tir fallið frá útfalli Hrauneyjafossvirkjunar við ármót Köldukvíslar og Tungnaár niður í Sultartangalón. Öll leyfi liggja fyrir vegna virkjunarinnar en undirbúningsframkvæmdir hófust árið 2002 en var frestað árið 2003.

Orkan úr virkjuninni er meðal annars ætluð til álversins í Straumsvík. Það hætti við áform sín um að stækka verksmiðjuna um tvo kerskála vegna andstöðu íbúa í Hafnarfirði.

Með bættri tækni er hins vegar hægt að auka framleiðslugetu um allt að fjörtíu þúsund tonn og orkuþörfin verður um 75 megavött. Með nýjum samningi við álverið verður rekstur þess tryggður til ársins 2037 og jafnframt hækkar orkuverð með nýjum samningum.

Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, segir það hið best mál að ráðist verði aftur Búðarhálsvirkjun. Ómar segir virkjunina sanna að náttúruverndarsinnar séu ekki á móti öllum virkjunum.

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður og formaður Vinstri grænna, segist fagna því að að vinna við Búðarhálsvirkjun verði hafin að nýju, svo fremi sem menn sætti sig við núverandi rennsli í Tungnaá.

Steingrímur segist margoft hafa bent á þennan kost í umræðum á Alþingi.

Sjá frétt á vef Landsvirkjunar um að framkvæmdir við Búðarhálsvirkun hefjist að nýju.

Birt:
8. ágúst 2008
Höfundur:
Vísir.is
Uppruni:
Vísir.is
Tilvitnun:
Vísir.is „Umhverfisverndarsinnar fagna Búðarhálsvrikjun“, Náttúran.is: 8. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/08/umhverfisverndarsinnar-fagna-buoarhalsvrikjun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: