Ætigarðurinn - allan ársins hring
Ætigarðurinn – handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur veflistakonu er stórglæsileg, rúmlega 200 blaðsíður, skreytt ljósmyndum og teikningum eftir höfundinn, bókin er í mjúku bandi, þægileg í notkun.
Um þessar mundir er gríðarlegur áhugi fyrir ræktun og hollum lífsháttum. Þessi bók hittir í mark hjá öllum þeim sem vilja rækta garðinn sinn og hlúa um leið að líkama og sál. Hildur sinnir gróðri allan ársins hring. Hér leiðir hún okkur á vit móður náttúru og sýnir fram á hve gott er að lifa í sambýli við hana. Hún lýsir því hvernig má nýta ýmsar jurtir, villtar og ræktaðar, til matar. Inn á milli eru girnilegar uppskriftir og áhugaverðar frásagnir um lífið og hugmyndafræði ræktunar. Bókin er gagnlegt uppflettirit en jafnframt skemmtileg saga höfundar sem hefur aflað sér viðamikillar þekkingar á náttúrunni og þeirri menningu sem tengist ræktun.
Um kvefið segir Hildur eftirfarandi:
„Ef þú lætur það eiga sig stendur það í þrjár vikur og ef þú tekur eitthvað við því stendur það í þrjár vikur líka, sagði einhver læknisfróður. Það er samt betra að reyna, það bætir skapið og hugann og vonandi hálsinn og nefrennslið. Vandinn er sá að það er svo erfitt að lækna sjálfan sig. Sá sem er veikur þarf helst að hafa einhvern annan til að útbúa mixtúrur, bakstra og gufuseyði og dekstra sig til að taka þær. Það er stór hluti að heiluninni að fá hjálp og samúð.“
Ætigarðurinn - handbók gransnytjungsins bls. 151-152, útgefandi bókaútgáfan Salka. Birt með leyfi höfundar.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ætigarðurinn - allan ársins hring“, Náttúran.is: 12. desember 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/aetigardur_jolagj/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 14. mars 2014