Er mannkynið að útrýma sjálfu sér? - Staða bílaiðnaðarins frá umhverfissjónarmiðum - Grein 1.
Í dag upplifum við einn af stærri vendipunktum í mannkynssögunni. Til þessa hefur mannkynið starfað af krafti við að umbylta jörðinni án afláts í mörg þúsund ár. En á einu augnabliki, og það augnablik er NÚNA, koma afleiðingarnar eins og holskefla yfir okkur. Lífið á jörðinni hefur þróast í fjóra milljarða ára og hefur á þeim tíma byggt þann lífhjúp sem við lifum í. Lífhjúpurinn samanstendur af lífríki þurrlendis og sjávar sem aftur skóp lífvænlegan lofthjúp. Allar lífverur sem nýta sólarorku í ljóstillífun vinna að stöðugri endurnýjun lofthjúpsins. Þannig má segja að skógar þurrlendisins og græný örungar sjávarins eru lungu lofthjúpsins í öfugum skilningi, þ.e. anda að sér koltvísýringi og frá sér súrefni. Lífhjúpurinn viðheldur efnafræðilegu jafnvægi lofthjúpsins og þar með viðhaldast lífvænleg skilyrði á jörðinni. Það er alveg ljóst að lífhjúpurinn kemst alveg af án mannkynsins en mannkynið kemst ekki af án lífhjúpsins. Með aðgerðum sínum hefur mannkynið sett lofthjúpinn úr jafnvægi og þar með sett lífhjúpinn í uppnám. Valkosturinn er einfaldur, annað hvort neyðist mannkynið til að lifa í jafnvægi með lífhjúpnum því annars neyðist lífhjúpurinn til þess að uppræta mannkynið.
Magn koltvísýrings í andrúmslofti sveiflast með reglubundnum takti. Vegna möndulhalla og sporöskjulaga ferils jarðar í kringum sólu og því að það eru lítil loftskipti milli norður og suðurhvels jarðar þá er 18.000 ára sveifla í magni koltvísýrings. Ástæðan fyrir sveiflunum t.d. á norðurslóðum er sú að þegar norðurhvelið sný r sem best móti sólu að sumarlagi og þegar það fellur saman með því þegar jörðin er sem næst sólu, þeim mun meiri sólarorku fær norðurhvelið. Fyrir vikið verður starfsemi ljóstillífunar í jurtum og þörungum meiri en í meðalári sem bindur meira kolefni og þar með minnkar koltvísýringsmagnið í lofthjúpnum. Sama gildir um suðurhvelið í mótfasa takti. Í rannsóknum hefur komið fram að fyrir átta þúsund árum síðan virðist magn koltvísýrings víkja frá hefðbundnum gildum. Sveiflurnar eru til staðar en gildin hækka. Fyrir fimm þúsund árum síðan má sjá aukningu á metan gasi en metan er tuttugu sinnum verri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Talið er að fyrir ellefu þúsund árum síðan hafi mannkynið byrjað að leggja stund á landbúnað. Eftir því sem manninum fjölgaði, voru skógar ruddir og land brotið undir ræktun. Seinna fór mannkynið að byggja áveitur og rækta kröfuharðari plöntur. Ástæðan fyrir aukningunni verður að skrifast á landbúnaðinn. Þrátt fyrir að vera smár í sniðum í byrjun þá er auðvelt að brenna skóga og breyta graslendi eða akur.
Hnéhátt gras kemur á engan hátt í staðinn fyrir tuttugu til fjörutíu metra háan skóg. Eyðing skóganna skýrir aukinn koltvísýring og áveitur og flæðiveitur valda losun metan gas.
-
Eftir að mannkynið komst upp á lag með að vinna kol og olíu versnaði ástandið. Batnandi efnahagur og mannfjölgun kallaði á stærra athafnasvæði og með hjálp vinnuvéla var hægt að stórauka hernaðinn gegn skógunum. Á sama tíma jókst notkunin á olíu og kolum, þ.e. gömul sólarorka bundin í kolvetni. Sem sagt, koltvísýringi dælt inn í kerfið á sama tíma og lungu lofthjúpsins eyðilögð. Þetta er vandamál okkar í dag, lífhjúpurinn er lýsandi dæmi fyrir astmasjúkling nema hvað engin er súrefniskúturinn.
Spurningin er, hvað ætlar þú að gera?
-
Höfundur er verkfræðingur.
Myndin er tekin af ruddu skóglendi í N-Skotlandi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Er mannkynið að útrýma sjálfu sér? - Staða bílaiðnaðarins frá umhverfissjónarmiðum - Grein 1.“, Náttúran.is: 12. janúar 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/mannkynid_utryma_ser/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 14. janúar 2008