Hætt er við að Ingólfsfjall þurfi að sætta sig við nýjar útlínur ef efnistaka í suðurhlíðum fjallsins fá að vinna á því mikið lengur.
Varla er hægt að tala um náttúruperlu fjarri byggð heldur er hér um eitt fjölfarnasta svæði landsins að ræða. Enda hefur stækkun námunnar stungið vegfarendur þjóðvegsins í augu um árabil. Efnistaka í 15 ár í viðbót þýðir umtalsvarðar raskanir á útliti og formi fjallsins. Fjallsbrúnin mun t.d. lækka um 80 metra á stóru svæði. Maður spyr sig því hvort að þetta komi engum nema landeigendum við?

Þrátt fyrir að Skipulagsstofnun hafi nú kynnt frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum gerða að beiðni Fossvéla ehf. er það aðeins fyrsta skrefið. Eftir er að meta allar hliðar málsins og eins og bent er á í frumskýrslunni liggur náman milli nokkurra vatnsbólssvæða og í henni er bent á að gera þurfi nánari úttekt á áhrifum á vatnsbólin. Sjá skýrslu. Vatn er jafn mikilvægt Selfyssingum og öðrum lífverum og því ekki um neina smávægilega hættu að ræða og þó hún sé metin afturkræf er ekki þar með sagt að hætta sé ekki til staðar. Jafnframt er bent á það í skýrslunni að námutakan hafi varanleg og óafturkræf áhrif fyrir utan hin neikvæðu sjónrænu áhrif. Þó hafa Fossvélar ehf. ekki hægt á efnistöku úr fjallinu að neinu leiti, ekki heldur á meðan á gerð frumskýrslunnar stóð. Einnig er í skýrslunni bent á augljósar hagkvæmnisástæður fyrir efnistöku á þessum stað. Auðveldara og ódýrara er að keyra upp að næstu fjallshlíð til efnistöku fyrir sveitarfélag í uppbyggingu. Það er líka rétt að umferð þungra vörubíla myndi menga umhverfið meira við að keyra lengri vegalengdir og verða dýrara þess vegna. En um leið og þessi leið er valin er verið að skera skarð í útsýni þess sama sveitarfélags sem er að spara sér sporin, burtséð frá öllum hinum sem þjóta þarna fram og til baka mörgum sinnum á ári. Þegar að hægt verður að mæla í krónum og aurum heildræn áhrif á röskun af þessu tagi t.d. á heilbrigðiskostnað og minnkun lífsgæða á svæðinu til lengri tíma litið verður kannski hlustað á andstæðinga fjalleyðingarinnar. Á meðan verðum við að sætta okkur við að nota innsæið til að meta heilstæð áhrif á umhverfisraskanir. En lýðræðið virkar aðeins með þátttöku og atvæði!


Svo sérkennilega vill til að landeigandi námusvæðisins er einnig formaður umhverfisnefndar Ölfuss en auglýst hefur verið „opið hús“ þann 26 janúar að Kjarri í Ölfusi þar sem frummatsskýrslan sem Línuhönnun vann fyrir Fossvélar ehf. verður kynnt. Það verður áhugavert að fylgjast með framsetningu þessa máls og málsmeðferð alla.

Myndirnar eru teknar á, að og ofan af Ingólfsfjalli í júní 2004. Ljósmyndir: Birgir Þórðarson.
Birt:
17. janúar 2006
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ingólfsfjallsmálið - Hvað um heilstætt mat á umhverfisröskunum?“, Náttúran.is: 17. janúar 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/ingomalid/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: