Sérstakur átta kílómetra langur hjólastígur frá Faxaskjóli að Reykjanesbraut var kynntur í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur í gær. „Hjólandi umferð fær sérakrein sem bætir öruggi þeirra og gangandi vegfarenda, og þjónusta við stíginn verður jafnframt aukin,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður ráðsins.

Markmiðið er að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi með breiðari stíg, aðskilnaði og breyttri legu. Lagt er til að göngu- og hjólastígurinn verði með lýsingu sem hvorki spillir útsýni né veldur nágrönnum stígsins ónæði. Í fyrsta áfanga verður sérstakur hjólastígur lagður meðfram Ægisíðu frá Faxaskjóli að Suðurgötu. Áætlaður kostnaður við þá framkvæmd er 36 milljónir króna. „Nú hefst kynningar- og samráðsferli þar sem íbúum borgarinnar gefst tækifæri til að koma með tillögur og ábendingar um þennan stíg. Ég kalla sérstaklega eftir athugasemdum frá þeim sem búa næst stígnum,“ segir Gísli Marteinn.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra Umhverfis- og samgöngusviðs segir tvöföldun stígsins vera byltingu í umhverfi hjólreiðamanna. „Stígurinn styrkir bæði hjólreiðar og göngur sem samgöngumáta og gerir báðum hópum mögulegt að njóta sín betur,“ segir Ellý Katrín og er ánægð að geta kynnt stíginn á sama tíma og átakið Hjólað í vinnuna stendur yfir. „Reykjavík sýnir hér samgöngustefnu sína hér í verki: að virða ólíkar ferðavenjur borgarbúa.“

„Stór þáttur Grænu skrefanna í Reykjavík er að bjóða fólki upp á betri aðstöðu til að ganga eða hjóla leiðar sinnar í borginni,“ segir Gísli Marteinn Baldursson. „Það er ekki nóg að malbika renning á milli staða heldur verður að gera umhverfið aðlagandi, öruggt og þægilegt í notkun. Í þessum fyrsta áfanga skilgreinum við stíginn frá Faxaskjóli í vestri upp í Elliðaárdal og reynum að hefja þessa fallegu leið upp á nýtt plan,“ segir hann.

„Mér finnst þetta vera mikið framfaraskref, “ segir Gísli Marteinn. „Til þess að fjölga þeim sem velja að hjóla leiðar sinnar verðum við að taka þennan samgöngumáta alvarlega. Inn á þennan stíg munum við svo tengja norður suður brautir, Suðurgötu og Hofsvallagötu, þannig að þeir sem vilja hjóla til dæmis úr Breiðholti niður í bæ geti gert það hratt og örugglega.“

Lagt er til að stígurinn sem í dag er þrír metrar verði breikkaður um tvo og hálfan metra. Þar sem því er viðkomið verður rúmlega eins metra eyja á milli með gróðri. Annarstaðar verður skilið á milli gangandi og hjólandi með málaðri línu.

„Þetta er tvímælalaust stærsta átak síðari ára í uppbyggingu göngu og hjólreiðastíga í borginni. Lífsgæði þeirra sem vilja njóta strandlengjunnar á rólegri göngu er aukin samhliða því að hjólreiðar fá sess sem fullgildur samgöngumáti í borginni. Ég er ákaflega stoltur af þessu framtaki,“ segir Gísli Marteinn Baldursson.

Myndin er af kynningarvegg um Græna skref Reykjavíkurborgar og hjóli merktu átakinu., á sýningunni Vistvænn lífsstíll í Perlunni á síðasta ári. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 14, 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Ægisíða: Sérstakur stígur fyrir hjólreiðar “, Náttúran.is: May 14, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/14/aegisioa-serstakur-stigur-fyrir-hjolreioar/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: