Húsbúnaðarrisinn Ikea hefur um árabil verið leiðandi afl á sviði umhverfisstarfs og íslenska verslunin tekur stöðugum framförum á því sviði. Lengi vel var erfitt að finna út úr því hvernig íslenska verslunin hygðist taka á umhverfismálum og fylgja stefnu keðjunnar en smátt og smátt bætast við þjónustuþættir gagnvart neytendum sem og innanhússvinna sem vert er að vekja athygli á.

Ingvar Kamprad eigandi IKEA var valinn langgrænasti ofurmilljarðamæringur heims af Sunday Times í fyrra (sjá grein frá 3.3.2009). Í grein sem Náttúran birti um IKEA á Íslandi fyrir réttu ári (sjá grein frá 16.02.2009) síðan var leitast við að meta stöðuna eins og hún var þá og hvetja fyrirtækið til dáða. Góðir hlutir gerast hægt en gerast þó og var því ánægjulegt að fylgjast með því þegar fyrirtækið setti upp pappírsgrenndargám við verslunina, hóf móttöku ljósapera og rafhlaðna til réttrar förgunar og hætti að bjóða upp á plastinnkaupapoka. IKEA á Íslandi hefur einnig gefið út yfirlýsingar um að verslunin hætti að selja hefðbundnar glóperur með haustinu (sjá grein frá 30.09.2009)

Á vefnum IKEA.IS er nú aðgangur beint af forsíðu á umhverfisstefnu fyrirtækisins og hægt er að sjá hvernig hver vara (gildir ekki fyrir allar vörur) tengist umhverfislegum viðmiðum s.s. uppruna vöru, endurvinnslu, endurvinnanleika o.s.fr. Sjá dæmi: LINDMON 100x155 brúnt, Endurvinnanlegt hráefni (viður). og CHARLOTTA MARK metravara B150cm Endurvinnanlegt hráefni (bómull). Engin ljósvirk bleikiefni.

Með því að upplýsa neytendur um umhverfisáhrif og tilurð vöru er IKEA á Íslandi að taka skref sem margir þora ekki að taka af hræðslu við að ef neytendur verði meðvitaðir hætti þeir að kaupa hinar vörurnar, þær sem eru illendurvinnanlegar og eitra frá sér frá vöggu til grafar.

Það hefur frá upphafi verið tilgangur Náttúran.is að hvetja fyrirtæki til að taka skref í átt til umhverfisvænni starfs- og framleiðsluhátta og óskum við IKEA á Íslandi því til hamingju með framtakið. Gaman væri að sjá slíkar upplýsingar við allar vörur í IKEA þegar fram líða stundir.

Ljósmynd: Móttaka rafhlaðna og glópera i anddyri verslunar IKEA, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. mars 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisupplýsingar tengdar vörum á vef IKEA“, Náttúran.is: 1. mars 2010 URL: http://nature.is/d/2010/03/01/umhverfisupplysingar-tengdar-vorum-vef-ikea/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. maí 2011

Skilaboð: