Samfylkingin bregst - Fagra Ísland fjarlægist
Með þessari stefnumótun um hið fagra Ísland hefur Samfylkingin tekið þá skýru stefnu að sú stóriðjustefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt á umliðnum árum og boðar á komandi kjörtímabili eigi ekkert erindi við framtíðina. Hún á ekkert erindi við framtíðina, nú er tímabært að stokka upp spilin, gefa upp á nýtt og gefa náttúrunni betri spil á hendi en hún hefur haft hingað til. Samfylkingin mun fylgja þessu máli fast eftir, þetta verður veganesti hennar inn í nýja ríkisstjórn.
Nú - rúmu ári eftir að Samfylkingin komst til valda - eru í hröðum undirbúningi tvö ný álver - í Helguvík og við Húsavík - auk þess sem boðuð er veruleg stækkun á álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Til að afla orku fyrir þessi álver eru í undirbúningi fjöldi virkjana sem ekki falla undir Rammaáætlun Samfylkingarinnar um náttúruvernd.
Rúmu ári eftir að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur tók við völdum hefur ríkisstjórnin enn ekki mótað loftslagsstefnu, enga aðgerðaáætlun um hvernig Ísland hyggst draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi; losun sem eykst með degi hverjum. Nú síðast var enn einu sinni beðið um undaný águ frá alþjóðlegum skuldbindingum Íslands vegna flugsamgangna í umboði Kristjáns Möllers, samgönguráðherra Samfylkingarinnar.
Virkjanir sem ekki verða teknar fyrir í Rammaáætlun
Jarðhiti á Norðurlandi: Bjarnarflag, Krafla, Gjástykki og Þeistareykir - Því skal til haga haldið að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, afturkallaði ekki rannsóknarleyfi sem fyrirrennari hans veitti Landsvirkjun í Gjástykki - 48 tímum fyrir kosningar 2007.
Jarðhiti á Hellisheiði: Hverahlíðarvirkjun, stækkun á Hellisheiðarvirkjun
Jarðhiti á Reykjanesskaga: Krþsuvík, Trölldyngja, Sandfell, Reykjanesvirkjunar, Eldvörp.
Vatnsafl á Suðurlandi: Búðarhálsvirkjun í Þjórsá/Tungná, Urriðafoss, Hvammsvirkjun, Gnúpsvirkjun, Hverfisfljót.
Mynd: Hellisheiðarvirkjun, ljósm:Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Samfylkingin bregst - Fagra Ísland fjarlægist“, Náttúran.is: 3. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/03/samfylkingin-bregst-fagra-island-fjarlaegist/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.