Framtíðarbæir - vilja minnka losun um 35% fyrir 2030
Orð dagsins 20. maí 2009
Þrettán stærstu bæir Noregs hafa sameinast um aðgerðir sem leiða munu til 35% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við það sem var 1991. Bæirnir þrettán taka þátt í verkefninu „Framtidens byer“, sem norska umhverfisráðuneytið hleypti af stokkunum á síðasta ári í samstarfi við bæina. Verkefnið stendur til ársins 2014 og snýst um að finna leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar áhrif aðgerðanna voru kynnt í gær kom m.a. fram að með þessu næðu bæirnir enn betri árangri en stefnt er að í norsku loftslagssáttinni (Klimaforliket).
Einnig kom fram að þegar tekið væri tillit til spár um fjölgun íbúa í bæjunum, samsvaraði árangurinn í raun allt að því 60% samdrætti í losun á hvern íbúa. Um leið myndu lífsgæði í bæjunum aukast, þar sem aðgerðirnar fælu m.a. í sér fjölgun hjólreiðastíga, minni bílaumferð, betri lausnir í fráveitu- og endurnýtingarmálum, auðveldari aðgang að endurnýjanlegri orku og aukna hæfni til að aðlagast loftslagsbreytingum.
Lesið fréttatilkynningu norska umhverfisráðuneytisins í gær,
og fréttir á heimasíðu Grønn Hverdag
og á vefsvæði Framtidens byer
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Framtíðarbæir - vilja minnka losun um 35% fyrir 2030“, Náttúran.is: 20. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/21/framtioarbaeir-vilja-minnka-losun-um-35-fyrir-2030/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. maí 2009