Stilla ber brauðgjöfum við Tjörnina í hóf
Mávi hefur nú fjölgað aftur við Tjörnina í Reykjavík, sennilega vegna þess að fæða hans í sjó hefur brugðist. Mávar leita fæðis í borginni og því er mikilvægt að draga úr óbeinum matargjöfum bæði með tryggum frágangi á matarleifum og með því að draga úr brauðgjöfum á Tjörninni á sumrin.
Fræðsluskilti eru við Tjörnina með upplýsingum um sterk samband milli umgengni og fjölda máva í borginni. Enginn ætti í raun að skilja eftir mat eða matarleifar á víðavangi.
Á fræðsluskiltinu kemur meðal annars fram að fæði sílamávsins er æði fjölbreytt. Hluti máva hefur aðlagast borgarlífinu og ber sig eftir matarleifum sem leynast víða. Ör fjölgun máva í þéttbýli síðastliðin ár stafar meðal annars af minni sílagengd í sjó en áður - en ekki síður af umgengi borgarbúa. Mávurinn leitar víða inn í borgina en gott ráð til að fækka honum er að skilja aldrei eftir óvarðar matarleifar, henda ekki rusli á götum úti og að ganga vel frá öllum úrgangi.
Einnig kemur fram á skiltinu að þrjú til fimm þúsund pör af sílamáv verpi á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru húsþök í námunda við fæðuuppsprettur vinsælir setstaðir máva og drit þeirra veldur sóðaskap og jafnvel skemmdum. Mávar eiga það til að ræna mat sem skilinn er eftir stundarkorn við grillið við heimahús eða á svölum.
Borgarbúar eru hvattir á fræðsluskiltinu til að stilla brauðgjöf við Tjörnina í hóf á sumrin því þá er meira af náttúrulegu æti fyrir endur og svani. Endurnar eru betur settar án brauðsins á sumrin. Loks stendur: Göngum frá öllum úrgangi á ábyrgan hátt í lokuð sorpílát.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Stilla ber brauðgjöfum við Tjörnina í hóf“, Náttúran.is: 29. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/29/stilla-ber-brauogjofum-vio-tjornina-i-hof/ [Skoðað:24. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.