Á Norræna loftslagsdeginum, þann 11. nóvember n.k. mun Changemaker eða Breytendur, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar, afhenda undirskriftir herferðarinnar “Hlýnun jarðar er mannréttindamál” til Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Fulltrúar samtakanna munu mæta kl. 3 í ráðuneytið og eiga stuttan fund með ráðherra.

Herferðin sem Changemaker hefur staðið fyrir síðastliðið sumar og haust snerist um að vekja athygli á stöðu fólks sem við höfum kosið að kalla flóttamenn undan hlýnun jarðar. Samkvæmt tölum frá Rauða krossinum eru nú fleiri sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna hlýnun jarðar en stríðsátaka. Hlýnun jarðar hefur meðal annars í för með sér uppskerubrest, útbreiðslu eyðimarka, hækkun sjávarmáls, bráðnun jökla og öfga í veðurfari. Samkvæmt Háskóla Sameinuðu þjóðanna eru flóttamenn vegna hlýnunar jarðar um 24 milljónir í dag en áætlað er að þeir verði um 50 milljónir í lok árs 2010. Breytendur hafa vakið athygli á þessu vandamáli einkum vegna þess að þetta fólk hefur engin skilgreind réttindi í alþjóðasamfélaginu

Meðlimir hreyfingarinnar hafa undanfarna mánuði sett upp gjörninga af ýmsum toga sem vakið hafa nokkra athygli, og safnað undirskriftum við tækifærið ásamt því sem fólki hefur verið gefinn kostur á að skrifa undir á netinu. Krafan sem við hyggjumst afhenta umhverfisráðherra hljómar orðrétt svona:

Í ljósi ábyrgðar Íslendinga á útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem valda hlýnun jarðar krefjumst við þess:

  • Að stjórnvöld skilgreini stöðu flóttamanna undan hlýnun jarðar og viðbrögð Íslands við þeim sem kunna að leita sér hælis hér vegna hennar.
  • Að Íslendingar taki sér stöðu meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum í Kaupmannahöfn í desember 2009.

Nánari upplýsingar: Grein um herferðina á changemaker.is.

Birt:
9. nóvember 2009
Höfundur:
Breytendur
Uppruni:
Breytendur
Tilvitnun:
Breytendur „Breytendur afhenda umhverfisráðherra undirskriftalista“, Náttúran.is: 9. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/09/breytendur-afhenda-umhverfisraoherra-undirskriftal/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: