Hitaveitur Húshitun með hitaveitu er 4-8 sinnum ódýrari en með öðrum orkugjöfum

Þjóðhagslegur ávinningur Íslendinga af hitaveitu á hefur verið gríðarlegur þau 100 ár sem hún hefur verið við lþði. Ekki eru allir sérfræðingar sammála um hver hann er nákvæmlega í krónum talið, en menn eru hins vegar sammála um að hann er mikill og að erfitt er að meta hann með nákvæmni. Ýmsar reikniaðferðir má nota í tilraunum til að gera grein fyrir fjárhagslegum hagsbótum Íslendinga af hitaveitu og verða mismunandi útreikningar sérfræðinga raktir hér.

Ríkið greiðir rúman milljarð í niðurgreiðslur til hitunar húsa sem ekki njóta hitaveitu á ári hverju og hitun með rafmagni eða olíu er margfalt dýrari en með hitaveitu. Hagsbætur þjóðarbúsins af hitaveitu eru miklar og hafa nefndar eru tölur í kringum við 20 milljarða á ári. Sparnaður einstaklings í Reykjavík af að hita hús sitt með hitaveitu í stað rafmagns er a.m.k. 80.000 kr. á ári.

Uppgangur í 100 ár
Íslendingar eru meðal duglegustu þjóða í nýtingu jarðhita. Ekki aðeins ef miðað er við höfðatölu heldur ef miðað er við heildarnotkun jarðhita þjóða. Um síðustu mánaðarmót var haldið upp á aldarafmæli hitaveitu á Íslandi og listaverk afhjúpað við hátíðlega athöfn í Mosfellsbæ, en það er Stefán Jónsson, bóndi á Suðurreykjum í Mosfellssveit, leiddi hveravatn í bæ sinn árið 1908 er talið marka upphaf hitaveitu hér á landi. Í upphafi aldar voru hús einkum hituð með kolum en þegar leið á öldina var farið að notast við olíukyndingu.

Hitun húsa með heitu vatni náði þó nokkru fylgi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, einkum eftir að kolaverð hækkaði mikið vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Upp úr 1920 hófst hitaveituvæðing hér á landi og 1928 tók Laugaveitan, sem dældi heitu vatni upp úr Þvottalaugunum, til starfa í Reykjavík. Þegar olíukreppan skall á 1970 var gert mikið átak víða um land í að finna jarðhita til að leysa af hólmi olíukyndingu og hlutur jarðhita við hitun jókst á skömmum tíma úr 50% í 85%.

Í dag nýta tæplega 90% landsmanna heitt vatn til húshitunar, en rúmlega 113.000 íbúðir nýta slíka hitun. Líklegt er að á næstu árum muni þetta hlutfall hækka enn frekar, bæði vegna ýmissa jarðhitaleitarverkefna sem standa yfir og vegna byggðaþróunar.

1,1 milljarður í niðurgreiðslur
Þær íbúðir sem ekki nýta hitaveitu til hitunar í dag notast flestar við rafmagnshitun, sem er niðurgreidd af ríkissjóði. Um 8% íbúða landsins hituðu hús sín með raforku árið 2007 og námu niðurgreiðslur ríkisins til þessa hóps, og þeirra sem hita með olíu, um 1,1 milljarði króna á árinu.

Því er ljóst að hagkvæmni Íslendinga af nýtingu jarðhitans eru mikil. Jarðhitinn er bæði nýttur til raforkuframleiðslu, en tæplega 27% allrar raforku sem framleidd var á Íslandi 2006 voru framleidd með jarðhitavirkjunum. Auk þess er jarðhitinn nýttur til húshitunar, en húshitun er stærsti einstaki þátturinn í orkunotkun Íslendinga. Í hana fór 21% af frumorkunotkun Íslendinga árið 2004.

Þrenns konar hagkvæmni
"Efnahagsleg hagkvæmni Íslands af hitaveitum er mikil og henni má í raun skipta í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er um að ræða beinan peningalegan sparnað, sem felst í því að við fáum ódýrari orku en ella," segir Haukur Eggertsson, iðnaðarverkfræðingur hjá Orkustofnun. "Í öðru lagi er ýmis starfsemi sem þrífst á jarðhitanum. Sem dæmi má nefna ylræktun, kísilverksmiðjuna sálugu í Mývatnssveit og þörungaverksmiðjuna í Reykhólasveit sem notar jarðhita við að þurrka þörunga og svona mætti lengi telja. Auk þess væru án jarðhita færri álver í landinu, fjárfestar væru ekki að taka þátt í verðmætasköpun erlendis og ferðamannaiðnaðurinn væri fátæklegri án Bláa Lónsins, Geysis og ýmissa jarðbaða. Í þriðja lagi má svo nefna aukin lífsgæði sem fást með því að nýta heita vatnið. Til dæmis fara Íslendingar fara almennt í lengri sturtur en aðrar þjóðir og svo má nefna snjóbræðslu, mikinn fjölda sundlauga og þannig mætti lengi telja."

Hversu mikill er ávinningurinn í krónum talið?
Haukur hefur metið fyrsta þáttinn, beinan peningasparnað vegna lægra orkuverðs við húshitun, til fjár. Haukur reiknar með að meðalkostnaður af hitaveitum sé í kringum 1,6 krónur á kílówatt stund. Íslendingar nota jafngildi tæplega 6 terawatt stunda af orku frá hitaveitum á ári, sem kostar um 9 milljarða króna á ári samkvæmt útreikningum Hauks. Haukur gerir ráð fyrir orkunýtingu á vatni niður í 35°C heitt vatn. Sé reiknað með að Íslendingar missi einskis í lífsgæðum og breyti ekki hitanotkun sinni má reikna út frá þessum forsendum hversu mikið myndi kosta að fá sömu orku með rafmagnshitun eða olíukyndingu.

Haukur telur að án jarðhita væri meðalverð rafmagns 5,5-6 krónur á kílówatt stund ef engar væru hitaveiturnar. Samkvæmt því myndi kosta um 22-27 milljörðum meira á ári að notast við rafmagnshitun en hitaveitur á Íslandi. Sé reiknað með að notast væri við olíukyndingu nyti hitaveita ekki við væri kostnaður 30-50 milljörðum króna meiri á ári samkvæmt útreikningum Hauks.

Fleiri hafa reynt að meta heildarhagnað þjóðarinnar af hitaveitum til fjár. Í Jarðhitabók Guðmundar Pálmarssonar reynir höfundur að leggja mat á ávinning af hitaveitum. Guðmundur segir að færa megi rök fyrir því að olía hefði að mestu verið notuð til upphitunar síðustu áratugi eins og áður, hefði jarðhitinn ekki komið til. Í Jarðhitabók er gert ráð fyrir að uppsafnaður sparnaður við húshitun sem náðist með notkun hitaveitu á tímabilinu 1970-2000 sé um 650 milljarðar króna á núvirði ársins 2000. Guðmundur framreiknar verðlag miðað við byggingavísitölu og miðar við 4% vexti á ári. Sé tala hans færð til núvirðis í maí 2008, með reikniaðferðum Guðmundar, er hún 1.821 milljarður í uppsafnaðan sparnað á tímabilinu. Í riti Guðmundar segir að sparnaður af hitaveitum á tímabilinu hafi verið að meðaltali 50 þúsund krónur á hvert mannsbarn í landinu.

Guðmundur nefnir einnig útreikninga Jóhannesar Zöega, fyrrverandi hitaveitustjóra. Útreikningar Jóhannesar styðjast við svipaða aðferð og forsendur og útreikningar Guðmundar, en niðurstaða Jóhannesar er að sparnaður af notkun hitaveitu frá upphafi hafi alls verið um 200 milljarðar króna á verðlagi febrúar 2001. Sé það reiknað til núvirðis með 4% vöxtum gerir það um 462 milljarða króna.

Bakkabræður byggja sér hús
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, tekur undir það að erfitt sé að meta efnahagslegan ávinning af hitaveitu vegna fjölda óvissuþátta. "Líklega væri rafmagn sú leið sem farin væri hér á landi ef við hefðum ekki hitaveitu, líkt og gert er í Noregi. En að reikna hver kostnaður af því væri miðað við kostnað af hitaveitu er gríðarlega flókið dæmi vegna fjölda óvissuþátta. Meðalorkuþörf er ótrúlega breytileg og ef meðalhitastig breytist um eina gráðu til eða frá þá skekkist allt dæmið. En auðvitað geta menn reynt að áætla heildarupphæðina sem sparast gróflega með því að gefa sér einhverjar forsendur og áætla út frá því. En að fá nákvæmlega rétta upphæð er mjög erfitt," segir Sigurður.

Sigurður hefur sjálfur reiknað hver sparnaður af hitaveitu er, en setur dæmið upp á annan hátt en þau dæmi sem rakin hafa verið hér að framan. Sigurður reiknar með að þeir Gísli, Eiríkur og Helgi byggi allir 190 fermetra einbýlishús á sama stað í Reykjavík. Húsin eru öll eins, fyrir utan það að hús Gísla notast við olíukyndingu, hús Eiríks við rafmagnshitun og hús Helga er hitað með hitaveituvatni. Ekki er reiknaður út stofnkostnaður við að koma hitunarkerfinu upp, aðeins rekstrarkostnaður. Orkuþörf húsanna til hitunar er sú sama en aðferðin við hana mismunandi.

Í forsendum sínum gerir Sigurður ráð fyrir að verð á olíu til hitunar sé 104 krónur á lítra, en það er meðalverð undanfarinna tveggja mánaða. Þegar þetta er skrifað er olíuverð til hitunar 114 krónur á lítra. Verð hitaveituvatns miðar Sigurður við verð hjá Orkuveitu Reykjavíkur, enda ný tir meiri hluti landsmanna sér hitaveitu þeirra.
Samkvæmt niðurstöðum Sigurðar er margfalt ódýrara að notast við hitaveitu en aðra orkugjafa við húshitun. Það myndi kosta Gísla 427-484 þúsund krónur á ári að hita hús sitt með olíu, eftir því hversu mikil orkunýting olíuketilsins er. Kostnaður við að hita hús Eiríks með rafmagni væri 224 þúsund krónur á ári á meðan kostnaður Helga við hitun með hitaveitu væri 57 þúsund á ári.

Sigurður reiknaði dæmið einnig ef þeir bræður sem ekki notast við hitaveitu njóta niðurgreiðslna frá ríkinu, líkt og raunin er um þann hluta þjóðarinnar sem ekki á kost á að hita hús sín með heitu vatni. Þrátt fyrir að njóta niðurgreiðslna þyrfti Gísli að greiða 140 þúsund á ári fyrir sína olíu í hitunarkostnað og rafmagnsreikningur Eiríks fyrir sömu hitun væri um 136 þúsund á ári. Helgi slyppi hins vegar enný á með 57 þúsund krónur, þannig að jafn vel með niðurgreiðslum er meira en tvöfalt ódýrara að notast við hitaveitu en við annað.

Auk þessa má nefna að hitun á húsi Gísla myndi blása árlega út 11 tonnum af koltvísýringi, en það er svipað magn og fimm meðal díselbílar blása út á ári við meðalakstur.
Beinan fjárhagslegan ávinningur af hitaveitu á Íslandi er erfitt að segja til um með nákvæmni. Ýmsar tölur hafa verið nefndar til viðbótar við þær sem raktar eru hér að ofan, en flestar eru þær af svipaðri stærðargráðu og þær sem nefndar hafa verið. Ljóst er þó að bæði einstaklingar og þjóðarbúið þyrftu að bera margfalt hærri kostnað af hitun ef notast væri við aðra orku en þá sem fæst með hitaveituvatni. Það er því vel við hæfi að 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi sé fagnað.

Myndin er af kæliturnum Nesjavallavirkjunar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
18. júní 2008
Höfundur:
Máni Atlason
Tilvitnun:
Máni Atlason „Ávinningur Íslendinga af hitaveitu er gríðarlegur“, Náttúran.is: 18. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/18/avinningur-islendinga-af-hitaveitu-er-grioarlegur/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. september 2011

Skilaboð: