Rétt fyrir aldamótin 1900 kom hópur nunna af reglu St. Jóseps hingað til lands og settust þær að í Hafnarfirði, Reykjavík og á fleiri stöðum. Þegar systurnar komu báru þær með sér hingað til lands nýjungar í matarhefð og matargerð, einnig í grænmetisræktun. Í túninu hjá þeim í Hafnarfirði voru í upphafi 20. aldar ræktaðar grænmetistegundir sem fáir Íslendingar höfðu komist í kynni við. En garðar við klaustur hafa lengi vel verið staðir endurnýjunar, endurnæringar og nýrra uppgötvana, einnig þau klaustur sem voru hér á landi á miðöldum. Þessir garðar eru hluti af menningarsögu okkar, staðir sem segja okkur sitthvað um sögu garðmenningar okkar.

Laukgarður – lækningagarður
Í klausturgörðum virðast víða hafa verið ræktaðar jurtir til lækninga. Einnig hér á landi. Orðið laukgarður var á miðöldum notað sem samheiti yfir alls kyns garða og orðið laukur yfir margs konar jurtir. Þetta á reyndar við um fleiri orð, eins og eik sem talið er að hafi ekki aðeins merkt þá trjátegund sem við notum orðið yfir í dag, heldur hafi vísað til alls viðar. Til eru heimildir um það að til forna hafi laukar verið álitnir heilagar jurtir. Þeir voru taldir afeitrandi og sótthreinsandi. Í seinni tíma ritum, eins og riti Björns í Sauðlauksdal, er orðið laukgarður notað yfir garð með laukum (allietum, cepina). Frá þessu segir Guðrún Pálína Helgadóttir í ritinu „Laukgardr“.

Talið er að flest ef ekki öll þau klaustur sem voru hér á landi hafi verið af reglu heilags Benedikts. Fyrsta klaustrið var reist á Þingeyrum á 12. öld en heimildir um líf manna og kvenna í þessum klaustrum og um garða við þau eru fáar sem engar, enda er talið að allar slíkar heimildir hafi glatast við siðaskiptin. Hins vegar þykir víst að klaustur þessi hafi byggst upp á svipaðan hátt og klaustur af sömu reglu á meginlandi Evrópu og er vitað að margir munkar héðan sóttu suður til Evrópu til landsins heilaga, líka til námsdvalar á meginlandinu og komu þá gjarnan við í klaustrinu í Reichenau, sem nú er syðst í Þýskalandi.

Eitt af markmiðum Benediktínareglunnar var að öðlast fullkomnun í kristilegum hætti og það líka með því að stunda jarðrækt. Hluti af trúarlegu lífi klaustranna var líkamleg vinna, ora et labora, og fólst hún meðal annars í jarðrækt og garðvinnu. Sú vinna var einnig hluti af félagslegri skyldu munkanna og nunnanna, að lækna sjúka og hlúa að nauðstöddum. Ræktun jurta til lækninga og matar virðist því hafa verið hluti af trúarlífinu og einnig af veraldlegum skyldum í klausturlífinu. Talið er víst að ýmsar tegundir lækninga- og matjurta hafi borist hingað til lands í tengslum við þau klaustur sem hér voru byggð upp.

Ef litið er til klaustursins í Reichenau, þá felur það í sér vísbendingar um hvað hefur verið ræktað þar á miðöldum. Út frá því má leiða líkur að þeim tegundum sem kunna að hafa borist með munkunum hingað til lands. Klausturgarðurinn í Reichenau hefur nú verið endurgerður og það eftir ljóði munksins Walahfrids frá 9. öld. Í ljóðinu lýsir hann í 444 versum alls 24 lækninga- og matargerðarjurtum. Þessum jurtum hefur verið plantað þar og eflaust spennandi að fara og skoða hvað er þar að sjá. Hér voru ræktaðar jurtir eins og lavendill, kúmen, ísópur, timían, morgunfrú, fífill, fenníka, salvía, kerfill og mynta, svo einhverjar séu nefndar.

Nýmeti í grænmeti
Þegar St. Jósefssystur komu hingað til lands fyrir rúmum hundrað árum var grænmetisræktun langt í frá útbreidd og neysla landans á jarðarávöxtum afar fábrotin. Það er ekki fyrr en á áratugunum fram að seinna stríði sem breyting verður á og Íslendingar fara að rækta og borða fleiri tegundir. Ljóst er að systurnar komu með margar nýjungar með sér og mataræðið hjá þeim ný stárlegt fyrir marga sem dvöldu í Landakoti, bæði sjúklinga og starfsfólk. Frá þessu segir Ólafur H. Torfason í bókinni um St. Jósefssystur. Hann skrifar um systurnar og á hér við síðustu öld: „Á fyrri hluta aldarinnar gátu systurnar sjálfar uppfyllt margar þarfir spítalanna með heimaöflun. Þær ræktuðu grænmeti, kartöflur og aðra jarðávexti við spítala sína í Reykjavík og Hafnarfirði, en höfðu líka frá byrjun hænsnahús til eggjaog kjúklingaframleiðslu. Þær voru hagsýnar húsmæður og kenndu mörgum ný tni og ráðdeild.“

En sumar nunnur voru einnig frægar fyrir lækningar sem þær stunduðu eins og Hildegard von Bingen, sem heilmikið hefur verið fjallað um undanfarin ár. Samfara vaxandi almennum áhuga á miðöldum hefur athygli fólks einnig beinst að þeim görðum sem voru kannski áhrifamestir á þeim tíma – klausturgörðunum – og mótuðu garðmenningu okkar töluvert mikið, allt fram á okkar tíma. Hér á landi hefur jurtagarðurinn í Skálholti verið endurgerður af garðyrkjufólki frá Engi í Biskupstungum og ber sá garður líklega einhvern vott um það hvaða nytjajurtir voru ræktaðar í klaustrum hérlendis.

Mynd: Bændablaðið.
Klausturgarðar voru lengi frameftir öldum griðarstaðir, þar sem ræktar voru nytjajurtir til lækninga og matargerðar.
Birt:
25. mars 2008
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Kristín Þóra Kjartansdóttir „Klausturgarðar“, Náttúran.is: 25. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/25/klausturgaroar/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: