Menningarveisla Sólheima er enn í fullum gangi og verða tónleikar Einars Clausen, tenórsöngvara haldnir í Sólheimakirkju kl. 14.00 á laugardaginn kemur. Einar mun þar flytja ýmis þekkt og vinsæl lög.

Gestir Sólheima ættu ekki að missa af hinum fjölbreyttu sýningum í Sesseljuhúsi umhverfissetri, en það má með sanni segja að þar sé eitthvað fyrir alla.

Ár hvert er haldin sýning með umhverfistengdu þema í Sesseljuhúsi og í ár er titill sýningarinnar Ókeypis er allt sem er best - spörum fyrir okkur og umhverfið. Sýningin er unnin í samvinnu við Rauðakrosshúsið og SÍBS. Þar má nálgast fjölbreyttar upplýsingar um hvað er hægt að gera ókeypis og fjölmargar hugmyndir um hvernig má á auðveldan og skemmtilegan hátt spara. Það sem er gott fyrir budduna er ósjaldan líka gott fyrir umhverfið.

Lifandi leir
er sýning á leirskúlptúrum frá leirvinnustofu Sólheima, og er hún í arinstofu Sesseljuhúss.

Hrein orka - Betri heimur sem er sýning um endurnýjanlega orkugjafa. Sýningin er að miklum hluta gagnvirk og mjög fróðleg fyrir alla fjölskylduna. Sýningin er bæði á ensku og íslensku, og því einnig tilvalin fyrir erlenda gesti.

Í Pálsstofu eru tvær ljósmyndasýningar.Annars vegar er sýning á myndum frá Heimili friðarins - Ikhaya Loxolo  í Suður-Afríku. Það er vistþorp í hraðri uppbyggingu sem byggir á sömu hugmyndafræði og Sólheimar, en styrktarsjóður Sólheima hefur meðal annars styrkt dvöl fatlaðra þar. Sólheimar í tímans rás  er ljósmyndasýning frá 79 ára sögu Sólheima.

Allir eru velkomnir á Menningarveislu Sólheima. Aðgangur er ókeypis að öllum viðburðum og má nálgast dagskrána og upplýsingar um opnunartíma á vefsíðu Sólheima solheimar.is
og hér: Dagskrá Menningarveislu Sólheima.

Birt:
29. júlí 2009
Tilvitnun:
Pálín Dögg Helgadóttir „Handverk, sparnaður, alþjóðlegt samstarf, orkumál og saga“, Náttúran.is: 29. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/29/handverk-sparnaour-althjoolegt-samstarf-orkumal-og/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: