Í gær fékk Jóhann Óli Hilmarsson 1. verðlaun í í ljósmyndasamkeppni Landverndar „Augnablik í eldfjallagarði“.

Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari Landverndar opnaði við sama tækifæri sýningu með 24 hlutskörpustu myndunum í húsnæði Símenntunar á Suðurnesjum að Skólavegi 1 í Reykjanesbæ. Sýningin verður opin fram yfir Ljósanótt.

Landvernd efndi til samkeppninnar til að vekja athygli á sérstöðu og fegurðar Reykjanesskagans enda hafi landslag og sérkenni skagans hingað til ekki verið nýtt né notið sem skildi. Nema ef vera væri af jarðvarmavirkjunum. Sem kunnugt er hefur Landvernd undanfarið rúmt ár verið að kynna hugmyndir að því að stofnaður verði „Eldfjallagarður og fólkvangur“ sem myndi ná frá tá Reykjaness alla leið til Þingvallavatns. Hugmyndin er ekki aðeins tímabær heldur nauðsynlegt innleg í umræðuna um sjálfbæra og umhverfisvæna nýtingu á svæðinu og myndi án efa efla framtíðartækifæri ferðamanniðnaðar á þessari stórkostlegu en illa kynntu náttúruperlu.

Þátttaka í ljósmyndasamkeppninni var mjög góð. Um 160 ljósmyndir voru sendar inn til keppningar og lenti dómnefndin í miklum vanda þegar koma að því að velja vinningshafana. Þrjár myndir voru verðlaunaðar og eru þær allar hverri annarri betri. 3. verðlaun hlaut Arngrímur Sigmarsson, 2. verðlaun Tómasz Þór Veruson og 1. verðlaun hneppti eins og áður segir Jóhann Óli Hilmarsson. Náttúran óskar vinningshöfum innilega til hamingju.

Sjá nánar um samkeppnina, Eldfjallagarðshugmyndina og opnunina á vef Landverndar.
Efri myndin er vinningsmyndin „Hveralandslag“ og sú neðri af höfundinum Jóhanni Óla við myndina.
Neðri ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
30. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Augnablik í Eldfjallagarði - Úrslit í ljósmyndasamkeppni Landverndar“, Náttúran.is: 30. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/30/augnablik-eldfjallagari-rslit-ljsmyndasamkeppni-la/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: