ORF Líftækni opnar hátæknigróðurhúsið Grænu smiðjuna
Fyrsta uppskeran af erfðabreyttu byggi var tekin í Grænu smiðjunni í Grindavík þ. 8. maí í nýju 2000 fermetra hátæknigróðurhúsi í eigu ORF Líftækni. Með hjálp erfðatækni sem þróuð hefur verið af ORF framleiðir byggið sérvirk og verðmæt prótein sem eru meðal annars notuð við læknisfræðilegar rannsóknir, lyfjaþróun og sem lyf.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skar fyrsta byggið og tók gróðurhúsið formlega í notkun við hátíðlega athöfn í dag. Með frekari uppbyggingu í tengslum við ný verkefni og fyrirhugaða byggingu próteinhreinsiverksmiðju er áætlað að starfsemi ORF skapi fjölmörg störf í Grindavík að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Hjá fyrirtækinu starfa nú rúmlega 20 manns.
ORF Líftækni hefur undanfarin ár unnið að þróun á eigin kerfi þar sem bygg er notað til að framleiða sérvirk prótein eins og finnast í mannslíkamanum. Þar á meðal eru svokallaðir vaxtarþættir sem eru mikið notaðir við margvíslegar læknisfræðilegar rannsóknir. Fyrirtækið setti fyrstu vörur sínar á markað í janúar síðastliðnum undir heitinu ISOkineTM. Þar með varð ORF fyrsta fyrirtækið í heiminum til að hefja sölu á slíkum próteinum sem framleidd eru með sameindaræktun í plöntum. Framleiðslan er mun hagkvæmari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum eða spendýrafrumum og mikið öryggi felst í að framleiða slík prótein í plöntum sem ekki geta borið sýkingar í menn. Á næstunni hyggur ORF á frekari landvinninga fyrir framleiðsluvörur sínar.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sagði þegar hann skar fyrsta byggið: „Hugmyndir ORF eru sprottnar upp úr opinberu rannsóknarumhverfi á Íslandi og með ódrepandi frumkvöðlabjartsýni hefur forsvarsmönnum fyrirtækisins tekist að yfirstíga alla erfiðleika og gera það að einstöku hátæknifyrirtæki í heiminum. Græna smiðjan í Grindavík skapar fyrirtækinu sterka ímynd þar sem framleiðslan byggir öll á grænni og endurnýjanlegri orku úr iðrum jarðar. Ég óska frumkvöðlunum og öllu starfsfólki ORF Líftækni hf. innilega til hamingju með Grænu smiðjuna og er þess fullviss að hún mun auka mjög á hróður Íslands á alþjóðavettvangi.“
ORF Líftækni hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2008.
Mynd: Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra uppsker fyrsta byggið í Grænu smiðjunni. Viðskiptablaðið.
Birt:
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „ORF Líftækni opnar hátæknigróðurhúsið Grænu smiðjuna“, Náttúran.is: 10. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/10/orf-liftaekni-opnar-hataeknigroourhusio-graenu-smi/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.