Styrkur svifryks (PM10) verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík laugardaginn 24. apríl. Í dag er austlægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu. Hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi var 111 míkrógrömm á rúmmetra kl. 12.00 en sólarhringsmörkin eru 50. Mengunin er m.a. vegna umferðar og öskumisturs sem berst frá gosstöðvunum í Eyjafallajökli.

Svifryk fór í 12. sinn á árinu yfir heilsuverndarmörk þriðjudaginn 23. mars og varð styrkurinn þá á Grensásvegi 128 míkrógrömm á rúmmetra. Dagana 25. og 26. apríl er búist við að það dragi úr svifryksmengun í Reykjavík meðal annars vegna úrkomu og breyttrar vindáttar.

Einstaklingar með viðkvæm öndunarfæri, s.s. lungnasjúkdóma og astma ættu ekki að vera utandyra að óþörfu. Áhugasamir geta fylgst með styrk svifryks á vefmæli á heimasíðu borgarinnar (reykjavik.is) en hann sýnir styrkinn á mælistöðinni við Grensásveg. Styrkur svifryks við mælistöðina í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum er vel undir heilsuverndarmörkum eða 21 og telst styrkurinn yfir heilsuverndarmörkum því staðbundinn.

Uppspretta svifryks í dag, 24. apríl er meðal annars frá uppspændu malbiki eftir nagladekk og ryki sem bifreiðar og vindur þyrla nú upp, auk þess sem öskumistur er yfir borginn frá gosstöðvunum í Eyjafjallajökli. Segja má að loftgæðin séu á svipuðum nótum og á miklum umferðardögum í borginni þegar aðstæður og veðurfar gera það að verkum að svifryk þyrlast upp.

Ekki er búist við að styrkur svifryks aukist i dag. Þá er búist við að rykmagn í lofti fari minnkandi þegar líður á helgina. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vaktar loftgæðin í borginni og gefur út frekari tilkynningar ef þörf krefur.

Spá um öskufall - Veðurstofan

Fréttatilkynning frá Sóttvarnarlækni

Almannavarnir www.almannavarnir.is

Umhverfistofnun  www.ust.is

Frekari upplýsingar veita: Anna Rósa Böðvarsdóttir s. 693 9678 og Árný Sigurðardóttir hjá Heilbrigðiseftirlitinu.

Birt:
23. apríl 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um svifryk“, Náttúran.is: 23. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/24/tilkynning-fra-heilbrigdiseftirliti-reykjavikur-um/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. apríl 2010

Skilaboð: