Haustið er skemmtilegur tími í garðinum. Það má taka margar vikur, jafnvel tvo mánuði, að taka upp úr görðunum og ganga frá. Það er æskilegt að hreinsa upp allt harðgresi, sem hefur náð sér á strik eða sáð sér innan um grænmetið yfir sumarið. Þegar ég nenni ekki að tína kamillublóm lengur, og þau eru farin að draga í land með að blómstra, klippi ég ofan af plöntunum. Þurrka efstu hluta plantnanna með blöðunum á fyrir te en set afganginn í safnhauginn. Smátt og smátt er það grænmeti notað sem eftir er eða því komið í viðeigandi geymslu. Annað læt ég standa og vona það besta. Oft er kyrrt og dýrlegt veður í september og október og stundirnar úti geta þá verið mjög gefandi. Hvítkál, grænkál, steinselja, sellerí, spergilkál og gulrætur mega frjósa að minnsta kosti einu sinni – rófur líka, en gæta þarf þess að taka rófur og annað grænmeti ekki upp fyrr en það hefur þiðnað aftur úti í beðunum. Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
1. október 2008
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Garðurinn“, Náttúran.is: 1. október 2008 URL: http://nature.is/d/2007/11/11/garurinn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. nóvember 2007
breytt: 6. október 2008

Skilaboð: