Orkuveita Reykjavíkur heiðrar hugvitskonur
Í dag hlutu tvær hugvitskonur viðurkenningu Orkuveitu Reykjavíkur og KVENN, félags kvenna í nýsköpun, fyrir framlag þeirra til nýsköpunar. Það voru þær Guðrún Guðrúnardóttir og Margrét Ragnarsdóttir, sem tóku við viðurkenningunum úr hendi Guðlaugs G. Sverrissonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur við athöfn í höfuðstöðvum fyrirtækisins.
Guðrún fann upp Plasterplug, nýja lausn til viðgerða á veggjum úr gifsi, stein eða spón, og Margrét, sem er doktor í sjúkraþjálfun, rekur ReMo ehf, sprotafyrirtæki í heilbrigðistækni, sem vinnur að þróun og sölu á mælitækjum í tengslum við sjúkraþjálfun.
Við þetta sama tækifæri skrifuðu fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og KVENN undir samstarfssamning um að veita árlegar uppfinningaviðurkenningar og halda sýningar á íslenskum uppfinningum. Þá kynntu þær Guðrún og Margrét uppfinningar sínar.
Elinóra Inga Sigurðardóttir, formaður KVENN, sagði m.a. í ávarpi sínu við athöfnina í dag að viðurkenningunum sé ekki síst ætlað að sýna fram á að frumkvöðlar séu ekki steyptir í sama mót. Þeir séu á ýmsum aldri, með mismikla menntun og af báðum kynjum.
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, lýsti því yfir í sinni tölu að hann vonaðist til að dagurinn í dag markaði upphaf náins samstarfs Orkuveitunnar og KVENN til eflingar nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
Þetta er í annað sinn sem slík viðurkenning er veitt. Árið 2005 hlaut hana Guðrún Sæmundsdóttir fyrir nýja lækningaaðferð við eyrnabólgu.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Orkuveita Reykjavíkur heiðrar hugvitskonur“, Náttúran.is: 28. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/29/orkuveita-reykjavikur-heioar-hugvitskonur/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. nóvember 2008
breytt: 21. febrúar 2009