Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra afhenti forsvarsmönnum Alnæmisbarna og Alnæmissamtakanna styrki í dag, hvorn að andvirði 200.000 kr. Umhverfisráðherra ákvað að senda ekki út jólakort með kveðjum ráðherra og starfsfólks en verja andvirði kortanna þess í stað til góðgerðamála.

Félagið Alnæmisbörn var stofnað árið 2004 til að styðja starf Candle Light Foundation í Kampala í Úganda. Candle Light Foundation var stofnað af Erlu Halldórsdóttur árið 2001 til að styðja ungar stúlkur sem orðið hafa fyrir barðinu á alnæmi. Það gerði hún með því að stofna kertagerð sem framleiðir kerti og skapaði þannig tekjur fyrir heimilislausar stúlkur.

Alnæmissamtökin á Íslandi vinna að því að auka þekkingu og skilning á alnæmi og styðja sjúka og aðstandendur þeirrra.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, María J. Gunnarsdóttir, formaður Alnæmisbarna, Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Alnæmissamtakanna, og Ingi Rafn Hauksson, formaður samtakanna.

Birt:
7. desember 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðherra ver andvirði jólakorta til góðgerðarmála“, Náttúran.is: 7. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/07/umhverfisraoherra-ver-andviroi-jolakorta-til-googe/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: