Fjölmenningardagurinn í Reykjavík verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 16. maí nk. Þetta er í fyrsta sinn sem Fjölmenningardagurinn er haldinn en markmiðið er að fagna  fjölbreytileikanum sem borgarsamfélagið býður upp á. Glæsileg dagskrá  er í boði sem miðar að því að allir fái notið sín og fjölbreytileikinn blómstri.

Dagskráin hefst klukkan 13.00 með fjölþjóðlegri göngu sem fer af stað frá Hallgrímskirkju. Fjölþjóðagangan er samstarfsverkefni Heimsgöngunnar og ýmissa samtaka innflytjenda á Íslandi. Markmið  Heimsgöngunnar, sem fer fram síðar á þessu ári, er að stuðla að friði  í heiminum og tilveru án ofbeldis. Yfirskrift Fjölþjóðagöngunnar að þessu sinni er friður og eining sem á mjög vel við um þessar mundir. Ómar Ragnarsson hefur samið Heimsgöngumars sem Lúðrasveitin Svanur mun  frumflytja við upphaf göngunnar og svo aftur þegar komið er á leiðarenda í Vonarstræti við Ráðhús Reykjavíkur.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur og Iðnó hefst svo fjölbreytt skemmtidagskrá frá  klukkan 14.00- 17.00 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar  kennir ýmissa grasa, meðal annars Bambusdans, dans Snæljónsins frá  Tíbet, Japönsk teathöfn og söngur frá Kenía, Sri Lanka, Írak, Búlgaríu  og Indlandi svo eitthvað sé nefnt. Af nógu verður að taka og ættu  allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmenningardagurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Alþjóðahúss og Heimsgönguhópsins og er stefnt að því að gera Fjölmenningardaginn að árlegum viðburði í borginni.

Sjá meira á Facebook

Birt:
15. maí 2009
Tilvitnun:
Methusalem Thorisson „Fjölþjóðaganga á Fjölmenningardegi“, Náttúran.is: 15. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/15/fjolthjooaganga-fjolmenningardegi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: