Í huga garðyrkjumannsins og safnarans spannar vorið tímabilið frá jafndægrum til 17. júní. Þó verður það aldrei neglt niður eftir almanaki. Veðráttan segir mest til um hvort vorar seint eða snemma og vorið er því ástand ekki síður en ákveðið tímabil. Til að hafa reglu á lífi sínu, og geta svarað vinum og fjölskyldu varðandi ferðalög og aðrar áætlanir, er þó gott að miða við að ljúka sáningu einhvern ákveðinn dag. Ég miða við 20. maí fyrir sáningu og áætla að ljúka því að planta út fyrir 17. júní. Nú teygja plöntun og tilflutningar trjáplantna sig lengra fram á sumarið, svo þessi dagsetning stenst ekki alltaf. Þó er best að ljúka því að flytja tré áður en þau laufgast.

Vorverkin geta hafist um leið og frost fer úr jörðu. Þá má fara yfir beðin, tína burt illgresi og stinga upp, hafi það ekki verið gert haustið áður. Kunningi minn, dýralæknir, sagði að ég mætti ekki nota þetta orð – illgresi. Hann hafði heyrt mig gera það í útvarpsþætti, sem margir hlustuðu á og ekki bætti það úr skák. Nýjasta kenningin væri sú, að líta skyldi á allar plöntur sem hefðu þær jafnan rétt og ekki auðkenna sumar með hnjóðsyrðum og jaðraði við einelti skildist mér. Það mætti umorða þetta svona: Þegar garðarnir eru stungnir upp á vorin er æskilegt að fjarlægja þær plöntur sem við höfum ekki vísvitandi plantað þar sjálf. Oft koma þá í ljós kartöflur sem hafa orðið eftir og geymst prýðilega í moldinni yfir veturinn. Þannig má fá „nýjar“ kartöflur í pottinn í fáeina daga. Það er ekki sérlega æskilegt að þessar „villikartöflur“ fari óvænt að spretta upp í garðinum innan um annað, en það kemur fyrir við sáðskipti. Grösin verða ansi stórvaxin innan um salatið og kartöflurnar viðkvæmari fyrir myglu og skyldi því alltaf halda þeim sér í geymslu. Einnig geta gulrætur hafa leynst í moldinni en þær eru sjaldan góðar, sennilega af því þær liggja ekki eins djúpt og kartöflurnar og frjósa því og þiðna hvað eftir annað. Smáfífla má hirða og nota í matinn með rót og öllu saman.

Óvinirnir:

Á vorin skjóta þeir upp kollunum. Húsapunturinn og snarrótin teygja sig inn í beðin. Sigurskúfurinn býr til rótarmöppu niðri í jörðinni og hótar að fara yfir hvar sem honum sýnist og þrengir að öðrum plöntum. Kerfill og kúmenjurt eru vorboðar en vilja líka hasla sér völl alls staðar. Skriðsóley og hóffífill, svo ekki sé talað um túnfífil og súru, arfa, hjartaarfa, elftingu, krossfífil, mýrardúnurt, hlaðkollu, lambaklukku, jafnvel baldursbrá og blágresi og grastegundir sem ég kann ekki nöfnin á – allar neita að láta beðin í friði og berjast um pláss og athygli.

En í þessu tauti mínu einn dýrlegan morgun, seint í apríl, fannst mér ég vera stödd úti á leikvangi með hraustum og kraftmiklum krökkum, sem öll kepptust um að láta á sér bera. Það er í eðli þessara plantna að þekja jörðina þar sem hún er opin. Þær halda líklega að matjurtagarðurinn minn sé sár í sverðinum, sem hann auðvitað er, og vilja gera sitt besta til að laga „meiddið“. Ég blessaði yfir lóðina og þakkaði karlinum mínum í huganum en hann hefur hjálpað mér að gera varnargarð úr hellum og sterkum plastdúk kringum beðin. Hann skiptir líka stundum um jarðveg í beðjöðrum, sem harðgresi hefur lagt undir sig. Ég einblíndi á gróskuna og fann styrk villtu flórunnar, þrótt og einbeitni.

Fyrstu inniplönturnar:

Hafi maður gróðurhús eða skála er fyrsta ferska grænmetið oft harðgert salat, sellerí, blaðbeðja, grænkál eða steinselja, sem hefur lifað af veturinn og fer að gera klárt fyrir fræmyndun. Þetta grænmeti má nýta í lok mars og snemma í apríl, áður en nokkuð fer að taka við sér úti og enn eru næturfrost. Hægt er að borða blöðin beint af ársgömlum plöntunum og þau eru fín í súpur og pottrétti. Þegar kemur fram í maíbyrjun eru þessar tvíæru plöntur farnar að leggja allt kapp á fræmyndun og þá eru þær ekki spennandi lengur, enda farið að koma upp það sem fyrst var sáð. Ef sáð er snemma og mikið þarf að grisja má hafa ungu grislingana í salat. Fjölærar kryddjurtir og laukar, eins og perlulaukur, sem búa við góð skilyrði, koma líka snemma til.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Myndin er af garðyrkjuáhöldum í gróðurskála Hildar Hákonardóttur í Ölfusi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
8. apríl 2016
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Vorverkin hefjast“, Náttúran.is: 8. apríl 2016 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/vorverkin-hefjast/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 8. apríl 2016

Skilaboð: