Sett hefur verið upp skilti í mynni Þjórsárdals, sem sýnir hve mikið af fallegri náttúru í anddyri þessa landsþekkta ferðamannastaðar hverfur fái Landsvirkjun leyfi til að virkja Hvamms, Holta og Urriðafossvirkjun. Skiltið var sett upp í samvinnu Flóamanna og Gnúpverja. Árnesingar og Rangæingar, fólk úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi, Ásahreppi og Holtahreppi, vinna nú saman að því að kynna líf og umhverfi fólksins við ána, til mótvægis við einsleitan veruleika Landsvirkjunar.

Tveir ráðherrar Samfylkingarinnar hafa síðustu daga kynnst viðhorfi heimamanna við Þjórsá, og þungum áhyggjum þeirra af kapphlaupi Landsvirkjunar við að tryggja sér gerð þriggja virkjana í Þjórsá.

Sjö fulltrúar hreppanna við ána, bæði úr Rangárvallasýslu og Árnessýslu gengu á fund Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra fyrir helgi og sama kvöld hitti Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra nokkra tugi heimamanna í boði ábúenda Skaftholts í Gnúpverjahreppi. Fundargestir fagna eindregnum stuðningi viðskiptaráðherra við baráttu heimamanna gegn virkjunaáformunum, sem þar kom fram. Fundarmenn telja vinnubrögð Landsvirkjunar ámælisverð á margan hátt og landeigendur við Þjórsá beitta afarkostum.

Von er á fleiri góðum gestum úr ríkisstjórninni í heimsóknir austur fyrir fjall á næstu vikum. Heimamenn fagna hverjum ráðherra, hverjum þingmanni og hverjum einasta Íslendingi sem getur stutt heimamenn í þeirri viðleitni að verja Þjórsá.

Í allt sumar hafa íbúar hreppanna við Þjórsá kynnt umhverfið við Þjórsá með margvíslegum móti. Sumarbústaðaeigendur og bændur hafa boðið fólki heim, boðað hefur verið til samverustunda, og baráttufunda við ána, farnar gönguferðir og útreiðartúrar. Bændur úr Flóa hafa jafnvel boðið áhugasömum gestum í flugferðir yfir svæðið. Tækifærin gefast enn og fjölbreyttir möguleikar á að sjá Suðurland í fylgd unnenda Þjórsár, langt fram eftir hausti.

Upplýsingar og góðar móttökur veita:
Ólafur og Albert Sigurjónssynir í Forsæti. 4863335, 8944835
Atie Bakker og Guðfinnur Jakobsson í Skaftholti. 4866002
Halldóra Gunnarsdóttir 8928202 og Björg Eva Erlendsdóttir 896 1222

Efsta myndin er tekin við uppmælingu skiltisins, Ólafur Sigurjónsson í Forsæti og Guðfinnur Jakobsson í Skaftholti, sú t.v. af uppsetningu, Ólafur Sigurjónsson í Forsæti, Guðfinnur Jakobsson í Skaftholtiog og Albert Sigurjónsson á Sandbakka. Sú neðsta af Ólafi í Forsæti að mála skilitð.

Birt:
24. júlí 2007
Tilvitnun:
Heimamenn við Þjórsá „Heimamenn kynna Þjórsá - Ráðherra gegn virkjunum“, Náttúran.is: 24. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/24/heimamenn-kynna-jrs-rherra-gegn-virkjunum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: