Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra mælir fyrir þremur frumvörpum til laga á Alþingi í dag; frumvarpi til laga um mannvirki, frumvarpi til skipulagslaga og frumvarpi um breytingu á lögum um brunavarnir. Í frumvarpi til skipulagslaga er m.a. lögð áhersla á að auka þátttöku almennings að gerð skipulagsáætlana og að ríkisvaldið geti lagt fram heildstæða sýn í skipulagsmálum sem varða almannahagsmuni. Í frumvarpi til laga um mannvirki er lögð áhersla á að tryggja öryggi og heilnæmi mannvirkja með auknum kröfum um hæfni og öguð vinnubrögð við mannvirkjagerð og með markvissara byggingareftirliti.

Í meðfylgjandi umfjöllun um frumvörpin segir m.a.:
Þannig er lögð áhersla á að auka þátttöku almennings við gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er.
Í frumvarpinu er jafnframt viðurkennd þörf á að ríkisvaldið vinni að heildstæðari sýn í skipulagsmálum í svokallaðri landsskipulagsáætlun. Með landsskipulagsáætlun fá stjórnvöld aukið tækifæri til að útfæra stefnu um sjálfbæra þróun. Landsskipulagsáætlanir geta náð til landsins alls, einstakra landshluta og efnahagslögsögunnar.

Í frumvarpi til nýrra laga um mannvirki er lögð til ný skipan stjórnsýslu mannvirkjamála en þó byggt á þeim grunni sem fyrir er. Lögð hefur verið á það áhersla að líta heildstætt á alla löggjöf þar sem fjallað er um öryggi og heilnæmi mannvirkja með það að markmiði að gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt. Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfir að ráða faglegri hæfni til að hafa með höndum yfirstjórn byggingareftirlits í landinu, með það að meginmarkmiði að auka öryggi mannvirkja og gæði. Í kjölfarið verði Brunamálastofnun lögð niður og verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar. Þá færast rafmagnsöryggismál frá Neytendastofu til stofnunarinnar og eftirlit með lyftum frá Vinnueftirliti ríkisins.

Undanfarin misseri hafa einkennst af spennu á byggingarmarkaði og sjaldan eða aldrei hefur eins mikið verið byggt á eins stuttum tíma. Heyrst hafa raddir um fleiri galla í mannvirkjum m.a. vegna aukins hraða við byggingarframkvæmdir þó að ekki liggi fyrir neinar rannsóknir sem staðfesta það. Allt þetta kallar á að settar séu skýrar reglur til að tryggja öryggi og heilnæmi mannvirkja, að gerðar séu kröfur um hæfni og öguð vinnubrögð þeirra sem að mannvirkjagerðinni koma og síðast en ekki síst að markvisst og faglegt byggingareftirlit fari fram.

Frumvörpin má lesa í heild sinni á heimasíðu Alþingis.
Frumvarp til skipulagslaga: www.althingi.is/altext/135/s/pdf/0616.pdf
Frumvarp til laga um mannvirki: www.althingi.is/altext/135/s/pdf/0617.pdf
Frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir: www.althingi.is/altext/135/s/pdf/0618.pdf

Myndin er lýsandi fyrir þær breytingar sem verða á stjórnsýslu mannvirkjamála.

Birt:
12. febrúar 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðherra leggur til breytingar á mannvirkja- og skipulagslögum“, Náttúran.is: 12. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/12/umhverfsiraoherra-leggur-til-breytingar-mannvirkja/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. júní 2008

Skilaboð: