Landsvirkjun vill taka efni úr námu sem liggur inni á vatnsverndarsvæði til að reisa Urriðafossvirkjun. Í matsskýrslu er ekki gert ráð fyrir efnistöku annars staðar en á virkjunarstað. Ekkert mark takandi á umhverfismatinu, segir íbúi í Flóahreppi.
Virkjanamál "Ef það kemur fram í umhverfismati að framkvæmdin verði sjálfri sér næg um fyllingu, en svo krefjast menn þess að námur verði hafðar klárar, þá stenst ekki ein af fors

Virkjanamál "Ef það kemur fram í umhverfismati að framkvæmdin verði sjálfri sér næg um fyllingu, en svo krefjast menn þess að námur verði hafðar klárar, þá stenst ekki ein af forsendum umhverfismatsins og þar með niðurstaðan," segir Jón Árni Vignisson, íbúi í Flóahreppi, um mat á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar.

Fréttablaðið hefur undir höndum bréf frá Helga Bjarnasyni, verkefnisstjóra hjá Landsvirkjun, til sveitarstjórnar Flóahrepps, frá því snemma í fyrra. Þar er þess óskað að náma í Hjálmholtslandi verði sett á skipulag og rekin áfram á næstu árum.

Í skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum er hins vegar gert ráð fyrir því að allt efni til Urriðafossvirkjunar komi frá virkjunarstaðnum.

Náman er á vatnsverndarsvæði og stóð til að henni yrði lokað.

"Þarna er gríðarlega mikið ferskvatnsból undir," segir Jón Árni. "Ef þessi náma verður sett inn á aðalskipulag þá er ekki verið að fara eftir umhverfismatinu í einu eða neinu. Þá er það bara óþarft," segir Jón Árni.

Hann segir þetta ekki eina dæmið um að umhverfismatið sé marklaust plagg. "Til að mynda sé þar talað um aðra lónsstærð við Urriðafossvirkjun en nú."

Hann segir Landsvirkjunarmenn gera sér grein fyrir að sá tími sé að renna út að menn telji viðunandi að búa til stór uppistöðulón í blómlegri sveit. "Með áróðri og óvönduðum vinnubrögðum á að virkja neðri hluta Þjórsár, þótt Landsvirkjun liggi með mörg hundruð milljónir í tilbúnum stöðvarhúsgrunni Búðarhálsvirkjunar, með vegum og brúm sem almenningur hefur borgað fyrir."

Jón Árni segir enn fremur að virkjanirnar muni hafa mjög neikvæð áhrif á ferðamennsku á Suðurlandi, sem án virkjana eigi sér bjarta framtíð, með nálægð við Leifsstöð og höfuðborgina, auk náttúruperla, safna og sögu.

"Svo má ekki gleyma rykmenguninni, því Landsvirkjun ætlar að dæla seti af lónsbotninum upp á bakkana. Eftir fáa áratugi verður þetta orðinn gríðarlega stór haugur, hátt í þrír kílómetrar að lengd, 200 metra breiður og fimm metra hár," segir Jón Árni. "Þess utan er mikil hætta á að þetta fari mjög illa með laxagengd í Þjórsá.

Myndin er af Urriðafossi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir 

Birt:
28. mars 2008
Höfundur:
ikh
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ikh „Segir umhverfismatið vera marklaust plagg“, Náttúran.is: 28. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/28/segir-umhverfismatio-vera-marklaust-plagg/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: