Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingar skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri Þjórsá, þar sem þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu hafi stangast á við skipulags- og byggingarlög. Annars vegar er um að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem ráðuneytið telur sér ekki heimilt að staðfesta. Hins vegar er um að ræða aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018, sem ráðuneytið samþykkir að öðru leyti en því sem snýr að virkjunum í neðri Þjórsá.

Báðum skipulagstillögunum er synjað staðfestingar með vísan til 34. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem fjallað er um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu, svo og með tilliti til ákvæðis 1. gr. laganna um réttaröryggi í því sambandi. Var það niðurstaða ráðuneytisins að við gerð beggja skipulagstillagna hefði sveitarstjórn farið gegn umræddum ákvæðum laga þegar sveitarfélögin gerðu hvort um sig samning við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar af hálfu fyrirtækisins vegna vinnu við skipulagsbreytingarnar. Ákvæði laganna geri ráð fyrir að kostnaður geti aðeins verið greiddur úr viðkomandi sveitarsjóði eða úr Skipulagssjóði. Sveitarstjórnum sé ekki heimilt að semja við aðra aðila eða stofnanir en Skipulagssjóð um greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags.

Þar sem gerð hluta aðalskipulags Flóahrepps 2006-2018 og gerð breytingartillögu varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps byggði á ólögmætum forsendum telur ráðuneytið að synja beri þeim hlutum skipulagstillagnanna sem snúa að virkjunum í neðri Þjórsá staðfestingar.

Ljósmynd: Urriðafoss, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. febrúar 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Skipulagi vegna virkjana í neðri Þjórsá synjað“, Náttúran.is: 1. febrúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/02/01/skipulagi-vegna-virkjana-i-nedri-thjorsa-synjad/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. september 2010

Skilaboð: