ÁRIÐ 2002 hefst smíði Kárahnjúkavirkjunar. Spannar aðdragandi þeirrar virkjunar allt til ársins 1946. Orka frá virkjuninni á svo að knýja nýtt álver á Reyðarfirði. Ráðamenn hafa með þessu talið sig vera að tryggja næga atvinnu og uppbyggingu á Austurlandi næstu árin og áratugina. Með álveri og virkjun átti að bjarga Austurlandi og fólksfækkun vegna kvótaruglsins. En svo var víst ekki raunin.
 
Kunningi minn kom til mín og sagðist ólmur vilja flytja austur á Hérað. Ástæður fyrir því voru gott veðurfar, rólegt og fallegt byggðarlag og nóg af íbúðum til sölu. En hann hafi ekki fundið neina vinnu.
 
Því miður er þetta staðreyndin í dag. Eftir að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun er lokið og álverið á Reyðarfirði hefur verið gangsett, hefur sjálfstæð atvinnusköpun og fjölgun í byggðarlaginu minnkað til muna. Ef þú vilt ekki vinna í álveri þá er litla aðra vinnu að fá.
 
Fyrir nokkrum dögum fór ég á mbl.is og kannaði hversu margar íbúðir væri til sölu á Egilsstöðum og atvinnauglýsingar á Austurlandi. 335 íbúðir eru til sölu á Egilsstöðum og nágrenni. Þar af eru þetta um 200 glænýjar íbúðir. Ekki er það nú slæmt kunna sumir að hugsa með sér. En staðreyndin er sú að langflestar af þessum glænýju íbúðum eru búnar að standa auðar síðan þær væru byggðar. Jafnvel fyrir 2 árum. Og hvað atvinnu snertir komu upp tvær auglýsingar, annars vegar nokkrar stöður lausar fyrir framhaldskólakennara og svo auðvitað vantar í álverið. Álverið hefur undanfarið kostað nokkrar milljónir í auglýsingaherferð til að fá fólk til starfa og lofað öllu fögru um kaup og kjör. Frægt er nú þegar álverið auglýsti að þeir skyldu aðstoða með kaup á húsum og kosta búferlaflutningana (reyndar eitthvað sem sveitarfélögin sjálf bjóða upp á og hafa gert lengi, fólk veit bara ekki af því).
 
Tækifæri til að nýta sér þessa tímabundnu fólksfjölgun hafa ekki verið nýtt. Get ég ekki svarið fyrir það hvort heimamönnum sjálfum er um að kenna, sveitarfélaginu eða einhverjum öðrum. Þvert á móti hafa þó nokkuð mörg smærri fyrirtæki lagt upp laupana. Sem dæmi má nefna Byggingarvöruverslun KHB og Blómabæ en þessi fyrirtæki lögðu ekki í samkeppni við Blómaval og Húsasmiðjuna (risana að sunnan). Þess má geta að nánast enginn skemmtistaður hefur verið á Héraði undanfarin ár. Svarthvítan hetjan, matsölustaður og bar til húsa í Fellabæ, barðist hetjulega áfram og seldi fullt af bjór og mat ofan í erlenda verkamenn og nokkra heimamenn. En svo fóru verkamennirnir og staðurinn hefur nú farið á hausinn. Menningarstarfsemi hefur ekki getað um frjálst höfuð strokið því ómögulegt hefur verið að finna húsnæði. Til dæmis má taka að leikfélögin hafa verið á vergangi undanfarin ár og ekki haft neinn samastað með sína starfsemi. En þó er breyting þar á, því verið er að koma á laggirnar menningarmiðstöð í gamla sláturhúsinu á Egilsstöðum.
 
Ég spyr, áttum við ekki að hafa eitthvað út úr þessum framkvæmdum öllum, átti svæðið ekki að vaxa og dafna? Það má með sanni segja að uppgangur og fólksfjölgun hafa ekki aukist með tilkomu stóriðjunnar á Austurlandi. Ástandið er verra ef eitthvað er, flest af því sem álverið átti að bjarga er á niðurleið.
 
Ég segi það alla vega fyrir mitt leyti: að koma heim núna er ekki eins og það var. Neikvæðni og almenn óánægja ríkir á staðnum og andrúmsloftið er ekki fullt af gleði og vilja eins og ég man eftir á mínum uppvaxtarárum.
 
Því segi ég við ykkur, kæru Sunnlendingar, ígrundið vel orsakir og afleiðingar stóriðju á svæðinu. Til eru fleiri atvinnuskapandi möguleikar. Gott dæmi er uppvöxtur menningar og háskólamála á Akureyri. Mín skoðun er sú að fleiri byggðarkjarnar ættu að taka þá uppbyggingu til fyrirmyndar og taka mið af henni í stað þess að einblína alltaf á sömu hugmyndina, að virkja og byggja álver.
 
Greinahöfundur er ein af mörgum ungmennum sem hafa flutt búferlum af Austurlandinu góða beint á Suðvesturhornið til að halda áfram námi eftir framhaldsskóla og er nú búsett á Stokkseyri.
Birt:
2. júlí 2008
Tilvitnun:
Hildur Evlalía Unnarsdóttir „Virkjun, álver og hvað svo?“, Náttúran.is: 2. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/02/virkjun-alver-og-hvao-svo/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: