Fyrsta samgöngustefnan fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarráði í dag. Stefnunni er ætlað að gera samgöngur á vegum borgarinnar vistvænar, draga úr ferðaþörf og stuðla að bættu borgarumhverfi til framtíðar.

Samgöngustefnan tekur til allra sviða og stofnana borgarinnar. Hún gefur borginni tækifæri til að sýna gott fordæmi í samgöngumálum, draga úr mengun og stuðla að betri borg. Árlega verður hlutfall vistvænna ferða aukið, hlutur vistvænna farartækja bættur og dregið úr bílaumferð á vegum borgarinnar.

Stefnunni verður framfylgt með markvissum hætti, m.a. með því að bjóða starfsmönnum samgöngusamninga í stað aksturssamninga og gjaldfrjálsum bílastæðum við vinnustaði borgarinnar verður fækkað. Reiðhjól og vistvænar bifreiðar munu standa starfsmönnum til boða vegna vinnuferða. Reykjavíkurborg mun á sama tíma tryggja góða aðstöðu og aðkomu fyrir gangandi og hjólandi starfsfólk og viðskiptavini.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir að samgöngustefnan sé ekki aðeins ávinningur fyrir starfsmenn borgarinnar heldur sé stefnunni ætlað að hafa áhrif á allt borgarsamfélagið. „Samgöngustefnan mun gefa starfsfólki færi á að samtvinna ferðamáta, útivist og heilsurækt. Með samgöngustefnunni er dregið úr kostnaði vegna ferða til og frá vinnu og stuðlað að umhverfisvænni lífsstíl. Ég hef fulla trú á að borgarbúar hafi áhuga á að taka þátt í þessu með okkur.”

Borgarráð fagnaði samhljóða samþykkt grænnar samgöngustefnu fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar á fundi sínum í gær. Stefnan er eitt af skilgreindum Grænum skrefum Reykjavíkur, sem miða að því að gera borgina umhverfisvæna, sjálfbæra og hvetja til hagkvæmari og betri rekstrar. Með innleiðingu grænnar samgöngustefnu sýnir Reykjavíkurborg í verki vilja sinn til að ganga á undan með góðu fordæmi. Borgarráð fól Umhverfis- og samgöngusviði, í samstarfi við Mannauðsskrifstofu, að styðja við innleiðingu samgöngustefnunnar hjá stofnunum og sviðum borgarinnar.

Sjá nánar um Græn samgönguskref borgarinnar.

Birt:
11. september 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Grænar samgöngur í öndvegi hjá Reykjavíkurborg“, Náttúran.is: 11. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/10/graenar-samgongur-i-ondvegi-hja-reykjavikurborg/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. september 2009
breytt: 11. september 2009

Skilaboð: