Viðmiðunargildi fyrir heilsuverndarmörk eða lyktarmörk vegna brennisteinsvetnis hafa ekki verið sett hér á landi. Ef miðað er við leiðbeiningargildi Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO) hefur styrkur brennissteinsvetnis ekki farið yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Hins vegar hefur styrkurinn oft  farið yfir lyktarmörkin.

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar keypti mælitæki árið 2006 til að mæla brennisteinsvetni (H2S) og hóf mælingar 22. febrúar sama ár í mælistöðinni við Grensásveg. Vitað var af auknum umsvifum á Hellisheiðinni og því talið æskilegt að mæla áhrifin í þéttbýlustu byggðinni í nágrenni virkjunarinnar.

„Strax í september 2006 sáum við hækkuð gildi miðað við tímabilið febrúar til apríl. Ástæðan reyndist sú að í september voru borholur í Hellisheiðarvirkjun prófaðar með því að láta þær blása,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi sem hefur umsjón með mælingunum fyrir Umhverfis- og samgöngusvið. Virkjunin var síðan gangsett fyrir tveimur árum eða í október 2006. Íbúar í nokkrum borgarhverfum og gestir á vinsælum útivistarsvæðum í nágrenninu hafa síðan endrum og eins fundið hveralykt frá Hellisheiðarvirkjun.

Heilsuverndarmörk fyrir brennisteinsvetni á Íslandi hafa ekki verið sett en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur sett leiðbeinandi sólarhrings viðmiðunargildi sem eru 150 míkrógrömm á rúmmetra. Það er langt undir þeim mörkum sem talin eru skaðleg heilsu manna. Alvarleg heilsuáhrif, s.s. sviði í augum, koma ekki fram fyrr en styrkurinn er orðinn hundrað sinnum hærri en viðmiðunargildið.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur einnig sett hálftíma viðmiðunargildi fyrir lyktarmörk. Ef lyktin á ekki að finnast má hún ekki fara yfir sjö míkrógrömm á rúmmetra. Ef hálftímameðaltöl eru skoðuð fyrir árið 2007, þá mælast 1298 hálftímar yfir lyktarmörkum þótt engin hætta stafi af því. Gera má ráð fyrir að einhverjir hafi fundið hveralyktina þau skipti. Þess ber þó að geta að fólk er misnæmt á lyktina og að ekki hafi borist margar kvartanir til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur enda flestallir vanir hveralykt. Lyktarmörk eru langt undir heilsuverndarmörkum.

Hæsta klukkutímagildi sem hefur mælst á mælingartímabilinu er 176.6 míkrógrömm á rúmmetra í febrúar 2007. „Hæsta sólarhringsgildi sem við höfum mælt er 62.7 µg/m3 snemma á þessu ári,“ segir Anna Rósa og að ekki sé vitað um langtímaáhrif lágs brennisteinsstyrks á heilsu almennings sem býr í nágrenni gufuaflsvirkjanna.

Nýlega kom fram að grámosi á Hellisheiðinni hafi drepist og má vænta þess að það stafi af langatímaáhrifum brennisteinsvetnis. Mosi er viðkvæm planta sem er lengi að vaxa og fljót að deyja. Engin gróðurverndarmörk H2S fyrir plöntur hafa verið sett.

Brennisteinsvetni er eitruð lofttegund sem getur verið hættuleg heilsu manna við háan styrk. „Við töldum því brýnt að hefja mælingar á brennisteinsvetni og áttum frumkvæði að því. Við höfum nú óskað eftir að fleiri mælitækjum til að geta vaktað  H2S á fleiri stöðum í borginni, “ segir Anna Rósa að lokum.

 

Grein um brennisteinsvetni eftir Önnu Rósu Böðvarsdóttur, bls. 3-4 frá 2007(Pdf)

Línurit yfir styrk á Brennisteinsvetni 2008

 

Birt:
10. september 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hveralykt eykst í andrúmsloftinu “, Náttúran.is: 10. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/10/hveralykt-eykst-i-andrumsloftinu/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: