Kæra Landverndar vegna álvers í Helguvík kom ekki of seint og ljóst er að samtökin eiga rétt á að kæra, að mati dósents í lögfræði. Augljóst að Skipulagsstofnun tók ákvörðun sem er kæranleg. Brýnt er að lagalegri óvissu verði eytt.
Skipulagsmál Kæra Landverndar vegna álvers Norðuráls í Helguvík er ekki of seint fram komin, eins og forsvarsmenn Norðuráls hafa haldið fram í fjölmiðlum.

Skipulagsmál Kæra Landverndar vegna álvers Norðuráls í Helguvík er ekki of seint fram komin, eins og forsvarsmenn Norðuráls hafa haldið fram í fjölmiðlum. Þá er skýrt að samtökin hafa rétt á að kæra. Þetta segir Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í umhverfisrétti.

Landvernd kærði þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki þurfi að fjalla saman um umhverfisáhrif allra framkvæmda sem tengjast álveri í Helguvík, svo sem rafmagnslína, virkjana og fleira. Kæran var vegna álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 4. október 2007 og er send umhverfisráðherra 10. október.

Deilt er um hvort Skipulagsstofnun hafi í raun tekið ákvörðun um það að ekki ætti að fjalla um alla þætti framkvæmdarinnar saman. "Það er mín skoðun að kæran sé ekki of seint fram komin, og að þarna sé um að ræða kæranlega ákvörðun," segir Aðalheiður.

"Að mínu mati er það rétt hjá Landvernd að í áliti Skipulagsstofnunar frá 4. október er í raun að finna niðurstöðu á þessu tiltekna álitaefni. Stofnunin afgreiðir þetta atriði inni í álitinu og byggir það fyrst og fremst á því að það séu svo miklir óvissuþættir að ekki sé hægt að láta meta þetta saman," segir hún.

"Meðal annars kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi ekki vitað hvernig átti að leysa úr þessu álitaefni. En það er enginn vafi í mínum huga að í áliti stofnunarinnar leynist kæranleg ákvörðun um þetta tiltekna atriði," segir Aðalheiður.

"Þetta er að að sjálfsögðu grundvallaratriði, og það má velta því fyrir sér hvort stofnunin hefði ekki átt að útkljá þetta tiltekna atriði í miðri málsmeðferðinni með formlegri ákvörðun, jafnvel þó það hafi ekki verið bein lagaheimild til þess," segir hún.

Þá hefðu umhverfisverndarsamtök og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta getað kært það atriði strax, og umhverfisráðherra kveðið upp úrskurð um þennan tiltekna þátt miklu fyrr.

Ljóst sé að lagaleg óvissa sé um það hvenær fjalla átti um málið, og brýnt að löggjafinn eyði þeirri óvissu á þann hátt að setja inn nákvæmari málsmeðferðarreglur hvað varðar aðra málsgrein fimmtu greinar laga um mat á umhverfisáhrifum, sem vísað er í í kæru Landverndar, segir Aðalheiður.

Svipað mál vegna Grundartanga.
Krafa um að umhverfisáhrif allra framkvæmda sem tengjast uppbyggingu álvers yrðu metnar saman kom einnig fram við undirbúining álvers Norðuráls á Grundartanga.
HInn 19. febrúar 1996 féllst skipulagsstjóri á þá kröfu Náttúruverndarráðs að láta meta áhrif álversins, hafnarinnar, rafmagnslína og efnistöku sanan. Rétt er að taka fram að þá voru önnur lög um mat á umhverfisáhrifum í gildi. Þeim úrskurði var skotið til þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundar Bjarnasonar, sem felldi úr gildi þann hluta úrskurðar skipulagsstjóra sem varðaði sameiginlegt mat allra þátta.
Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, segir ljóst að eins og lögin vour árið 1996 hafi ekki verið heimilt að krefjast þess að allir þættir framkvæmdarinnar væru metnir saman. Það sé hins vegar heimilt nú.

Mynd frá Víkurfréttum: Þau Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði ahentu Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, byggingarleyfi vegna álvers í Helguvík á föstudag. 

Birt:
March 16, 2008
Höfundur:
Brjánn
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Brjánn „Skýr réttur til að kæra álit um álver“, Náttúran.is: March 16, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/16/skyr-rettur-til-ao-kaera-alit-um-alver/ [Skoðað:July 22, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: