Í dag var opnuð fræðslusýning um sjálfbæra þróun í Gamla bókasafninu, Mjósundi 10 í Hafnarfirði. Sýningin byggir á hugmyndum Jarðarsáttmálans, sem saminn var af nefnd skipaðri af Sameinuðu þjóðunum. Í nefndinni sat fólk frá öllum heimshornum og öllum stigum þjóðfélagsins. Sáttmálinn byggist á þeim grundvallaratriðum sem einstaklingar, fyrirtæki og þjóðir þurfa að tileinka sér til að hægt sé að skapa heim sem byggist á sjálfbærri þróun, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti.
Sýningin var upprunalega sýnd á Heimsfundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002 og var hún framlag UNDP (Þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna), UNEP (Umhverfisráð Sameinuðu þjóðanna), Earth Council, Earth Charter Initiative og SGI (Sokai Gakkai International) til þessa áratugar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt ,,áratug menntunar fyrir sjálfbæra þróun."

Líkt og Mannréttindasáttmáli og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna voru gerðir til að tryggja réttindi allra jarðarbúa, er Jarðarsáttmálinn gerður með vernd jarðarinnar að leiðarljósi og um leið afkomu, réttlæti og velsæld allra jarðarbúa, segir í fréttatilkynningu.

Að sýningunni standa Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar, Staðardagskrá 21 í Hafnarfirði, SGI á Íslandi og Gamla bókasafnið. Sýningin er öllum opin og aðgangseyrir er enginn. Sýningartími er kl. 14:00-18:00 virka daga og 14:00-20:00 um helgar. Sjá nánar á vef um sýninguna. Sjá kynningarmyndbandið „Quiet revolution“.

Birt:
22. september 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fræ breytinganna - Fræðslusýning um sjálfbæra þróun“, Náttúran.is: 22. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/22/fr-breytinganna-frslusning-um-sjlfbra-run/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: