Össur Skarphéðinsson opnaði í dag formlega nýja þjónustustöð N1 á Bíldshöfða þar sem er að finna fyrstu fullbúnu þjónustustöðina fyrir metanbíla á Íslandi, með sjálfsafgreiðslu fyrir bæði fólksbíla og stærri þjónustubíla.

Metanið er afgreitt til stöðvarinnar á Bíldshöfða um 10 kílómetra langa leiðslu frá Álfsnesi en þar er það unnið úr hauggasi sem verður til úr lífrænum úrgangi sem þar er urðaður. Við vinnsluna verður til vistvænt islenskt eldsneyti.  Áður var metanið flutt með tönkum og afgreitt á sérstöku svæði vestan við þjónustumiðstöðina en í dag er metan aðgengilegt í sjálfsafgreiðslu á eldsneytisplani nýju þjónustustöðvarinnar með sama hætti og annað eldsneyti sem þar er í boði.  Nýr afgreiðslubúnaður tryggir hraða og örugga áfyllingu metans en gert er ráð fyrir að fjölga afgreiðslueiningum fyrir metan á stöðinni eftir því sem notkunin eykst.

Næsta stöð í Hafnarfirði

„Opnun nýju stöðvarinnar er liður í aukinni þjónustu okkar við notendur metanbifreiða sem fer fjölgandi á Íslandi en N1 er eina félagið sem í dag býður metan sem bifreiðaeldsneyti á almennum markaði,“ sagði Hermann Guðmundsson forstjóri N1 við opnunina í dag.  Fram kom hjá Hermanni að metantankarnir sem áður voru á Ártúnshöfða verða fluttir til Hafnarfjarðar, þar sem N1 mun opna nýja afgreiðslu fyrir metan í haust. Hann segir að búast megi við frekari fjölgun metanstöðva á næstu árum. Þátttakendur í metanverkefninu eru SORPA bs., Metan hf.,  Orkuveita Reykjavíkur sf., REI hf. og N1 hf. sem á og rekur metanstöðvarnar.

Í dag eru á annað hundrað ökutæki hér á landi, bæði stór og smá sem nýta metan að hluta eða að öllu leyti. Meðal ökutækja sem ganga eingöngu fyrir metani eru 11 sorpbílar og 2 gámaflutningabílar sem þjóna Reykjavíkurborg og 2 almenningsvagnar Strætó bs.  Með hækkandi verði á hefðbundnu bifreiðaeldsneyti merkja menn aukinn áhuga á bifreiðum sem knúnar eru með metani en verð á því er nú 94 kr/Nm3. Miðað við orku samsvarar það að greiddar væru 83,93 kr. fyrir lítrann af 95 oktana bensíni. 

Að sögn Björns H. Halldórssonar framkvæmdastjóra Metans er talið að metanið, sem verður til við vinnsluna í Álfsnesi nægi sem eldsneyti á allt að 4000 bíla þegar fullum afköstum hefur verið náð á svæðinu.

Birt:
7. ágúst 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Ný metanstöð opnuð í dag“, Náttúran.is: 7. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/07/ny-metanstoo-opnuo-i-dag/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: