Laugardaginn 13. september stendur AkureyrarAkademían fyrir afmælismálþingi til heiðurs kartöflum. Tilefnið er ekki eingöngu alþjóðlegt ár kartöflunnar í ár, heldur einnig 250 ára ræktunarafmæli kartaflna á Íslandi og það að 200 ár eru liðin síðan ræktun þeirra hófst í Búðargilinu á Akureyri.

Málþingið er styrkt af Menningarráði Eyþings og er hugsað sem blanda af fræðum, listum, ræktun og matargerð með erindum, uppákomum, veisluhaldi og dansi – fræðandi og nærandi. Þátt tekur garðyrkjufólk sem og ræktendur, myndlistarfólk, sagnfræðingar, bændur, dansari og tónlistafólk. Í hópi þeirra eru þau Hildur Hákonardóttir, myndlistarkona og rithöfundur, og Bergvin Jóhannsson, formaður samtaka kartöfluræktenda. Matargerðarsnillingarnir á veitingastaðnum Friðrik V töfra fram kartöflurétti og hljómsveit leikur fyrir dansi um kvöldið.

Málþingið er öllum opið og er aðgangur ókeypis. Bændum, fræðifólki, ræktendum, garðyrkjufólki og áhugafólki um ræktun, neyslu og matarmenningu er sérstaklega bent á að sækja þingið sem haldið er í húsakynnum Akademíunnar í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti á Akureyri. Þingið hefst klukkan 13 á laugardag og stendur fram eftir kvöldi. Nánari upplýsingar eða fyrirspurnir á vef Akureyrarakademíunnar.
Birt:
10. september 2008
Höfundur:
Bændablaðið
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Bændablaðið „Málþing um jarðepli í íslenskri menningu í 250 ár“, Náttúran.is: 10. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/09/malthing-um-jaroepli-i-islenskri-menningu-i-250-ar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. september 2008

Skilaboð: