Hefur þú það stundum á tilfinningunni að framleiðendur láti sér í léttu rúmi liggja hvaða áhrif framleiðsla þeirra hefur á heilsu þína, hvað þá umhverfið?

Eins og við höfum komist að að undanförnu er því miður oftar en ekki þannig í pottinn búið. Þeim er sama, svo lengi sem gróðinn fer í rétta vasa. Spillingin er allsstaðar og allt um kring. Sú staðreynd að þúsundir tilbúinna og oft stórhættulegra efna séu notuð til að framleiða vörur er nokkuð sem að er erfitt að trúa en það er staðreynd og við verðum að horfast í augu við að markaðurinn er ófreskja sem að neytendur eru algerlega háðir um aðföng.

Góðu fréttirnar eru að við höfum líka vald til að þrýsta á um breytingar. Ef við nýtum okkur ekki það vald, gerist ekkert. Þá er ósköp einfalt og þægilegt fyrir hvern sem er að taka upp á því að framleiða vöru og selja okkur. Ef við skoðum ekki innihaldið og umbúðirnar og veltum ekki fyrir okkur hvaða áhrif varan hefur á okkur og umhverfið þá er framleiðandinn ekkert að breyta vörunni eða lagfæra hana þannig að hún sé óskaðleg. Það er ósköp skiljanlegt og þannig hafa hlutirnir gengið fyrir sig um langa hríð.

Það sem er svo dásamlegt við vottanir eins og umhverfismerki er að eitthvað pottþétt batterí hefur tekið að sér að grandskoða fyrirbærið og fara fram á að það uppfylli ströngustu skilyrði. Það getum við neytendur ekki gert, við höfum hvorki þekkingu né tíma til að hafa áhyggjur af því hvort hvert og eitt einasta snitti sem við þurfum á að halda í daglegu lífi sé ekki eitrað eða skaði ekki náttúruna.

Þess vegna er ég dolfallinn aðdáandi umhverfismerkinga, þær eru að vinna fyrir mig, þær eru öryggisventill og tæki fyrir mig til að senda skilaboð til allra framleiðanda og þjónustuaðila í heiminum. Með því að velja frekar umhverfisvottað erum við virkilega að hafa áhrif, við erum að taka þátt í kosningum sem þrýsta á aðra um að uppfylla sömu ströngu skilyrðin.

Svanurinn er eitt allra virtasta umhverfismerki í heiminum í dag og að baki Svansmerkingu liggur gríðarlega þéttriðið öryggisnet fyrir okkur og umhverfið. Hugsið ykkur ef allir færu eftir þeim kröfum sem Svanurinn gerir til framleiðslu og þjónustu, þá væri heimurinn virkilega betri.

Birt:
14. maí 2010
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hverjum vilt þú treysta?“, Náttúran.is: 14. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/14/hverjum-vilt-thu-treysta/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: