Svansmerkt eldsneyti
Orð dagsins 30. júní 2008
Norræna umhverfismerkjanefndin samþykkti á dögunum viðmiðunarkröfur fyrir svansmerkt eldsneyti, þær fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Kröfurnar taka til fjölmargra þátta á öllum vistferli eldsneytisins, allt frá vinnslu hráefna og þar til eldsneytinu er brennt. Kröfurnar snúast þannig m.a. um val á ræktunarlandi, ræktunaraðferðir, framleiðslu, flutninga og brennslu. Kröfurnar fela m.a. í sér tilgreinda hámarkslosun gróðurhúsalofttegunda á öllum vistferlinum, takmörkun á orkunotkun við framleiðslu eldsneytisins, rekjanleika og vottun ræktunarlands og takmörkun skaðlegra áhrifa á heilsu.
Að minnsta kosti þriðjungur hráefnisins sem notað er í eldsneytið verður að vera endurnýjanlegur, sem þýðir að eldsneytið getur fengið vottun Svansins þó að 2/3 hlutar þess séu úr jarðefnaeldsneyti, enda uppfylli það allar hinar kröfurnar. Eldsneyti sem framleitt er úr korni getur ekki fengið vottun skv. þessum fyrstu viðmiðunarreglum. Hins vegar er hægt að votta eldsneyti úr pálmaolíu, soja, sykurreyr og timburúrgangi, enda liggi fyrir upprunavottorð sem tryggir að rétt hafi verið staðið að ræktun og framleiðslu.
Lesið fréttir á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 26. júní sl.
og á heimasíðu Svansins í Noregi sama dag
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Svansmerkt eldsneyti“, Náttúran.is: 30. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/30/svansmerkt-eldsneyti/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.