Steinbundið kolefni - Tilraunaverkefni
Í dag var undirritaður samningur þeirra fjögurra aðila sem standa að verkefni sem beinist að því að binda koltvísýring í berg. Að verkefninu standa Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Rannsóknarráð Frakklands og Columbia háskóli. Tilkynnt var um verkefnið nú í vor og vakti það strax verðskuldaða athygli enda gæti útkoma þess orðið gífurlega mikilvæg til að losa koltvísýring úr andrúmsloftinu.
Ferlið byggist á því að herma eftir náttúrunni og reyna að binda koltvísýring með kalsítmyndun í bergi eins og á sér stað við eðlileg eldsumbrot.
Varað skal þó við of mikilli bjartsýni því að enn er alls óvíst hvort rannsóknir beri árangur og enn óvissara hve hratt væri hægt að hrinda kolefnisbindingu á þennan hátt í framkvæmd. Hagkvæmni slíkrar afgreiðslu kolefnisins er ennfremur dreginn í efa af mörgum en leyfum vísindamönnunum að vinna í friði og óskum þeim alls hins besta. Verkefni sem þessi mega þó aldrei virka sem svefnpilla á fyrirtæki og almenning um að taka sig á og bera ábyrgð á kolefnislosun sinni. Bent skal á vef Kolviðar og Orkuseturs en þar eru reiknivélar þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta reiknað út sína kolefnislosun. Sjá nánar um verkefnið á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Steinbundið kolefni - Tilraunaverkefni“, Náttúran.is: 29. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/29/steinbundinn-koltvsringur-tilraunaverkefni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. janúar 2008