Yfirlýsing, einróma samþykkt á um 100 manna samstöðufundi
Á fjölmennum samstöðufundi sem haldinn var í Grindavík fyrr í kvöld var því fagnað að fundinum var boðið að senda fulltrúa sína á fund fjármálaráðherra strax á morgun. Fjármálaráðherra verður færð meðfylgjandi yfirlýsing sem var einróma samþykkt á fundinum:
Á samstöðufundinum settu margir spurningarmerki við fjárhagslegt hæfi GGE til þátttöku í milljarða viðskiptum með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Fyrirtækið virðis mjög skuldsett og sumir helstu eigenda þess eru á borðum skilanefnda gömlu bankanna. Leitað verður svara hjá fjármálaráðherra. Samstöðufundur haldinn í Grindavík þann 25. ágúst 2009 skorar á ríkisstjórn Íslands og sveitarfélög að koma í veg fyrir að fram gangi kaup Magma Energy á hlutum í HS orku og tryggja þannig áframhaldandi opinbert eignarhald á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.
Framsal auðlindarinnar í jafn langan tíma og gert er ráð fyrir í tilboði Magma ber að líta á sem varanlegt auk þess sem því fylgir augljós áhætta á að auðlindin verði uppurin að framsalstímanum liðum.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu er brýnt að lausafjárvandi samfélagsins sé ekki leystur með bráðræðislegum gjörningum þar sem stórum hagsmunum er fórnað. Fundurinn vill því heita á ríkisstjórn Íslands að standa vörð um sameiginlegar auðlindir landsmanna með langtíma hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þar sem við ráðstöfun og nýtingu sé horft til þess að hámarka samfélagslegan og þjóðhagslegan ávinning af auðlindinni í sátt við náttúruna.
Myndin er tekin á fundinum í Saltfisksetrinu í gærkveldi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Yfirlýsing, einróma samþykkt á um 100 manna samstöðufundi“, Náttúran.is: 26. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/25/yfirlysing-einroma-samthykkt-um-100-manna-samstoou/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. ágúst 2009
breytt: 16. maí 2010