Framtíðarmyndin
Ef að þær framkvæmdir sem nú eru uppi á borðinu um álver í Helguvík og álver og álgarð i Þorlákshöfn ganga eftir liggur nokkuð ljóst fyrir að virkjanir við neðri hluta ÞJórsár verða að veruleika. Það er staðreynd að virkjanir og álver eru ekki neitt einkamál einstakra sveitarfélaga og því brýnt að Íslendingar fari að gera sér grein fyrir ábyrgð þess að búa í llýðræðisríki. Lþðræðið útheimtir þátttöku borgaranna, þar sem skoðanir borgaranna eru úrslitavald í lýðræðisríkjum. Það gildir einnig fyrir einstök mál, lýðræðið er ekki bara fjögurra ára heimsókn á kjörstað og frí þess á milli. Fólki er boðið að taka þátt í tveim uppákomum í dag sem eiga sér báðar það sameiginlegt að koma í veg fyrir að ÞJórsá falli í valinn fyrir þremur virkjunum og uppistöðulóðum þeirra. Munið að virkjunum fylgir orkufrekur iðnaður af aðeins einni gerð og því er skorað á þá sem sjá þá framtíð ekki fyrir Ísland að mæta á eftirfarandi uppákomur í dag:
1. Sól í Flóanum, áhugahópur um verndun Þjórsár heldur baráttufund við Urriðafoss í dag sunnudaginn 1. júlí kl. 15:00. Náttúruunnendur, áhugafólk um verndun fossins og Flóamenn allir eru hvattir til að mæta og sýna þannig hug sinn. Fólki er bent á að sameinast í bíla eins og kostur er, nota bílastæði fjær fossinum, koma gangandi, á reiðhjóli eða ríðandi eða gera annað það sem kemur í veg fyrir bílastæðavandamál.
Dagskráin verður stutt og hnitmiðuð, nærveran við fossinn verður aðalatriðið.
Sól í Flóanum.
2. Suðurland Heimboð við Þjórsá í Gnúpverjahreppi
Góðir Íslendingar, komið og kynnist náttúrunni í mynni Þjórsárdals sunnudaginn fyrsta júlí frá 13:00 - 17:00. Opið hús verður í Fagralandi, sumarbústað, í landi Haga, þar sem Landsvirkjun stefnir að því að sökkva náttúruperlum, flúðum, eyjum, klettum og grónu landi. Hjónin Guðbjörg Friðriksdóttir og Sigurður L. Einarsson, ásamt öðrum sumarbústaðaeigendum í landi Haga taka á móti öllum þeim sem vilja sjá hvað í húfi er.
Baráttufundur við Urriðafoss
Söfnunarreikningur vegna baráttunnar um Þjórsá er í Landsbanka Íslands. Reikningurinn heitir „VERJUM ÞJÓRSÁ“ og númerið er: 0120-05-075616, kt. 181260-4759.
Myndin er af rafmöstrum og álverinu í Straumsvík. Ljósmynd: ©Árni Tryggvason.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Framtíðarmyndin“, Náttúran.is: 1. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/01/framtarmyndin/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007