Undanfarið hefur umræðan um jarðfræðilegan grundvöll Kárahnjúkavirkjunar verið endurvakin í fjölmiðlum. Áður en virkjunin var samþykkt á Alþingi var talsverð umræða um sprungur á svæðinu. Þá létu virtir jarðvísindamenn í ljós skoðanir sínar í þá veru að vert væri að rannsaka svæðið betur. Stíflustæðin eru á svæði sem telst virkt umbrotasvæði mitt á milli tveggja svæða sem eru og hafa verið virk gossvæði í nútíma. Kverkfjöll og aðrar elstöðvar í Vatnajökli hafa verið mjög virkar eins og tíð gos í Grímsvötnum minna á. Aðeins 132 ár eru frá gosinu í Öskju sem var gríðarmikið gos og líklega hafa því fylgt miklar jarðhræringar þó mælingar séu ekki til frá þeim tíma. Greinarhöfundur var sjálfur viðstaddur Kröfluelda sem hófust á 11 km langri sprungu norður af Kröfluvirkjun á níunda áratug síðustu aldar. Á þeim árum sem Kröflueldar stóðu gliðnaði land í Axarfirði í metravís. Svo enginn þarf að fara í grafgötur með að undir þessu landsvæði öllu eru að störfum mikil öfl sem enginn mannlegur máttur fær við ráðið.

Þeir vísindamenn sem töldu ástæðu til að kanna landið betur undir virkjun voru kallaðir hrakspámenn af talsmönnum þeirra sem höfðu hagsmuna að gæta í tengslum við umsvifalausar framkvæmdir. Reynt var að gera þá totryggilega og bera á þá vinstri-stefnu og tilfinningasemi. Ómálefnaleg aðferð þeirra sem komast í þrot með rök.
-
Rannsókn var gerð og niðurstöður hennar voru þær að sprungur væru mun nær stíflustæðum en "ætlað" hafði verið í fyrstu. „Nær“ þýðir hér að sprungurnar eru beinlínis undir stíflustæðinu sjálfu. Þessum niðurstöðum átti að stinga undir stól um árabil og halda leyndum fyrir raunverulegum hluthöfum í framkvæmdinni, skattgreiðendum þessa lands. Því þeir bera kostnaðinn, verða fyrir barðinu á þenslunni, og taka á sig skellinn ef allt fer illa.
-

Þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra aðila sem standa að þessari virkjun þess efnis að hávísindalega sé staðið að öllu þarf að loka að minnsta kosti öðru auganu til að sjá ekki einkenni fljótræðis og þess að kapp sé hér tekið fram yfir forsjá.
-

Grunur þeirra vísindamanna sem vöruðu við framkvæmdum án frekari rannskókna hefur styrkst hverju skrefi og skelfilegt til þess að hugsa ef verstu grunsemdir verða staðfestar með sama hætti. Rök framkvæmdaaðil hafa varla haldið vanti hingað til og illu heilli má jafnvel búast við að það geri stíflan ekki heldur.
-

Sprungur og misgengi geta lekið en hugsanlega nær aurburður Jöklu að fylla í þau göt. Í kjölfar skjálftannna 17. júni 2000 tók að leka úr Kleifarvatni. Yfirborð þess lækkaði um a.m.k. 4 metra á skömmum tíma. Hægt var að ganga að „niðurfallinu“ og sjá hvernig vatnið streymdi niður í sprungu sem liggur eftir endilöngu vatninu. Upp komu ný jarðhitasvæði og hurfu. Við erum stöðugt minnt á að landið sem við byggjum er ekki dautt heldur á stöðugri hreyfingu og getur bylt sér fyrirvaralítið.
-

Í Fréttablaðinu í dag (13. 8. 2006 http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/060813.pdf ) er vitnað í orð Haraldar Sigurðssonar jarðfræðings um rannsókn Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhannessonar þar sem hann segir að framkvæmdirnar gætu verið „ískygglileg bíræfni“. Í sömu grein er einnig rætt við Sigurð Arnalds, talsmann Landsvirkjunar og vísar hann til samvinnu aðila á alþjóðavísu eins og það sé trygginga á lausn vandamála að útlendingar leggi blessun sína yfir áætlanir. Það eru líklega ekki margir, jafnvel á heimvísu, sem komið hafa að byggingu mannvirkis af þessari stærðagráðu á jafn ótryggum stað og á miðjum Altantshafshryggnum. Eins segir hann „[...] öryggisaðgerðir stíflunnar í sífelldri endurskoðun, með það fyrir augum að bregðast við nýjum uppþsingum er koma fram á framkvæmdatíma“. Það er gott mál, en það styður líka skoðanir þeirra sem héldu því fram að rannsaka bæri svæðið mun betur áður en ráðist væri í framkvæmdir. Og þá er aðeins átt við rannsóknir til að tryggja öryggi mannvirkja. Ekki allan þann jarð- og náttúrufræðifróðleik sem sökkt verður. Ljóst er að margt hefur komið fram við framkvæmdir og ekki allt eins og menn vonuðu. Kostnaður mun vera kominn fram yfir efri vikmörk þó framkvæmdaaðlar þegi eins og þeir frekast mega.
-

Þeir sem fengnir hafa verið til þessara framkvæmda hafa verið staðnir að mestu mannréttindabrotum sem fram hafa farið hér á landi frá siðaskiptum og galdrafári. Íslensk yfir völd hafa einnig farið yfir velsæmismörk í baráttu við hina stórvarasömu mótmælendur. Einstaka aðilar í þeirra hópi hafa reyndar hagað sér kjánalega. En það er lögreglan sem unnið hefur eið að verndun laga og réttar í þessu landi. Ekki þessir einstaklingar. Þeir geta gert það sem þeir vilja og taka þá afleiðingum gerða sinna. Lögregan á ekki að taka sér vald til að „fyrirbyggja“ mögulega glæpi og bera því reyndar við þegar fólk biður um aðstoð til að verjast ofbeldi. Þá segja þeir að þeim sé ekki heimilt að bregðast við nema afbrot hafi verið framið.
-

Vera má að dæmið gangi upp og virkjunin standi þann skamma tíma sem lónið tekur við vatni áður en það fyllist af aur. Vera má að álverinu verði ekki lokað næstu áratugina og þeir sem þar vinna geti unað sáttir við sitt og lesið barnabækur um horfna náttúru. En hvað verður þegar lónið fyllist og jökulárnar finna sér nýja farvegi. Álnotkun mun dragast saman á næstu áratugum þegar flugvélar og annað verður fremur framleitt úr koltrefjum. Mögulega verðum við heppin að ekki verði lokað á Reyðarfirði. Pottar og önnur ílát til matargerðar framleidd úr áli eru talin heilsuspillandi og jafnvel valda Alzheimer. Það verður kannski happ sumra að fá þennan leiða sjúkdóm svo þeir þurfi ekki að naga sig í handabökin í ellinni.

Birt:
13. ágúst 2006
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Að byggja á traustum grunni“, Náttúran.is: 13. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/traustur_grunnur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 3. maí 2007

Skilaboð: