Atvinnumál Áform um byggingu átta til níu vatnsverksmiðja hér á landi hafa ekki breyst þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu.

Atvinnumál Áform um byggingu átta til níu vatnsverksmiðja hér á landi hafa ekki breyst þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu. Framkvæmdir eru hafnar við byggingu tveggja verksmiðja og fimm til sex aðrar eru á hugmyndastigi. Verksmiðjurnar munu skapa nokkur hundruð störf gangi áætlanir eftir en ljóst að brugðið getur til beggja vona með verkefnin í því árferði sem nú ríkir í efnahag landsins.

Nokkur sveitarfélög hafa á undanförnum tveimur árum lagt drög að því að setja á fót verksmiðjur og hefja vatnsútflutning. Hugmyndirnar eru mislangt komnar. Þegar hefur fyrirtæki hafið framleiðslu í Þorlákshöfn í nýju og fullkomnu verksmiðjuhúsnæði. Í Vestmannaeyjum og Snæfellsbæ eru framkvæmdir hafnar. Á fimm til sex stöðum eru verksmiðjur áætlaðar og til dæmis hafa samningar um aðstöðu og sölu á vatni verið undirritaðir í Hafnarfirði og á Ísafirði.

Þar sem verksmiðjurnar eru lengst komnar er áætlað að allt að fimmtíu manns muni vinna í hverri verksmiðju. Þetta er þó misjafnt eftir tegund framleiðslu og tæknistigi hvers fyrirtækis. Er því ljóst að fyrirtækin munu skipta töluverðu máli í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, komist þau á legg.

Icelandic Water Holdings ehf., fyrirtæki athafnamannsins Jóns Ólafssonar, gangsetti í lok september nýja verksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Verksmiðjan er um 6.700 fermetrar að stærð og mun í fyrri áfanga anna átöppun um 100 milljón lítra á ári. Á annan tug manna vinnur nú í verksmiðjunni. Í Snæfellsbæ, nánar tiltekið á Rifi, hófust framkvæmdir við byggingu verksmiðju á sama tíma. Miðað við áætlanir mun átöppun þar hefjast haustið 2009. Í Vestmannaeyjum eru framkvæmdir ný hafnar.

Að sögn Kristins Jónassonar, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, er það kanadískur fjárfestingasjóður sem stendur að baki framkvæmdum á Rifi og í Eyjum. "Ég held ég geti sagt með vissu að þegar þeir gerðu sínar áætlanir þá stóð gengisvísitalan í 115 en er nú í vel yfir 200 stigum. Þeir eru að koma með fjármagn inn í landið og því er það mjög hagstætt fyrir þá að halda hratt áfram."

Verksmiðjurnar sem um ræðir eru bæði hugsaðar sem átöppunarverksmiðjur en einnig til útflutnings á vatni í gámum sem fer til lyfja- eða vínframleiðslu. Söluaukning á vatni á heimsmarkaði hefur verið um fimm prósent á undanförnum árum.

Birt:
12. nóvember 2008
Höfundur:
Svavar
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Svavar „Áætlanir standa um vatnsverksmiðjur“, Náttúran.is: 12. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/23/aaetlanir-standa-um-vatnsverksmiojur/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. nóvember 2008

Skilaboð: