Tvö álver í Þorlákshöfn?
Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi fundaði með forsvarsmönnum Þorlákshafnarbæjar í gær um hugsanlega niðurkomu Alcan í Þorlákshöfn. Í frétt hér á Náttúrunni frá 25. maí (sjá greinina) var sagt frá því að yfirlýsingar hefðu komið frá Jóni Hjaltalín Magnússyni forsvarsmanni Altech um að svokallaður álgarður eða áltæknigarður væri „fullfjármagnaður“. Það vekur þvi spurningar um hvort að hér sé um tvö aðskilin verkefni að ræða. Annars vegar álgarð Altech og ónefndra erlendra fjárfesta og hins vegar nýtt Alcan álver og þá hvort að á dagskrá sé að Þorlákshöfn verði höfuðþorp áliðnaðar á Íslandi þar sem nokkrir álrisar hafi í hyggju að koma sér fyrir.
Þorvarður Hjaltason framkvæmdstjóri Samtaka Sunnlenskra Sveitarfélaga var inntur eftir afstöðu sambandsins til umleitana Alcan um álver í Þorlákshöfn á RÚV í morgun þar sem Þorvarður lýsti því yfir að SASS hefði skýrt frá því í yfirlýsingu frá 23.04.2007* að sambandið væri hlynnt „nýtingu orku til orkufreks iðnaðar, í heimabyggð“. Jafnframt kom Þorvarður inn á að margt væri enn í veginum t.a.m. þyrfti að byggja nýja höfn. Landrými, gnægt vatns, þynningarsvæðið og rokið væri þó jákvæður þáttur fyrir slíkan iðnað.
Náttúran hafði samband við Þorvarð í kjölfarið og spurði hann m.a. hvort að fullfjármögnunaryfirlýsing Altechsmanna sé eitthvað sem honum sé kunnugt um en hann kvaðst ekki vita meira um málið en að þessi yfirlýsing hafi verið gefin út. Hann sagði einnig að með orkufrekum iðnaði kæmi svo margt annað til greina eins og t.d. hátækni,
gagnageymslur eða iðnaður af annarri gerð og stærðargráðu. Það væri því mistúlkun að segja að SASS berjist fyrir því að áliðnaður komi á svæðið enda sé það sveitarfélaganna sjálfra að ákveða hvaða atvinnustarfsemi fer þar fram. Hann benti einnig að enn væri margt eftir s.s. útvegun lóðar, umhverfismat, samningar við orkufyrirtæki og þvi ekkert í höfn enn."
*Á vef SASS (Sambands Sunnlenskra Sveitarfélaga) segir orðrétt í frétt frá 23.04.007:
Orkan verði nýtt á Suðurlandi
Á fundi stjórnar SASS sem haldinn var 20. mars sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt um orkumál með einu mótatkvæði, sjá nánar í fundargerð 402. fundar:
,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga vekja athygli á breyttum aðstæðum sem hafa skapast í orkumálum á Íslandi vegna niðurstöðu ný afstaðinnar kosningar í Hafnarfirði sem hefur stöðvað frekari stækkunaráform Alcan í Straumsvík og þar með fyrirhugaða aukna orkusölu Landsvirkjunar til fyrirtækisins.Í ljósi þessa telja samtökin eðlilegt að raforka frá virkjunum sem kunna að verða reistar á Suðurlandi verði nýtt til orkufreks iðnaðar á Suðurlandi, en nú þegar eru uppi áform um slíka atvinnustarfsemi. Til þess liggja margvísleg rök. Langstærstur hluti þeirrar raforku sem framleidd hefur verið á Íslandi hefur komið frá virkjunum á Suðurlandi en orkan hefur hingað til verið nýtt til atvinnuuppbyggingar í öðrum landshlutum. Því er eðlilegt og rétt að grípa tækifærið sem nú gefst til að nýta orkuna í héraði. Þá benda samtökin á að með því að nýta orkuna sem næst virkjunum verða flutningslínur styttri og ódýrari. Styttri flutningslínur leiða einnig til minna orkutaps og minni sjónmengunar sem hvort tveggja er æskilegt vegna umhverfissjónarmiða.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja því mikla áherslu á að sú orka sem kann að verða virkjuð á Suðurlandi á næstu árum verði nýtt í héraði.”
Sjá nánar um stefnu SASS á vef sambandisins.
Myndin er af höfninni í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Birgir Þórðarson.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tvö álver í Þorlákshöfn?“, Náttúran.is: 30. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/30/tv-lver-orlkshfn/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.