Í gær undirrituðu samstarfsaðilar um djúpboranir á Íslandi samning við StatoilHydro um aðkomu þeirra að djúpborunarverkefninu (IDDP). StatoilHydro tekur þátt í rannsóknarhluta IDDP-verkefnisins og leggur um 104 milljónir króna í fyrstu IDDP holuna í Kröflu. Forborun þeirrar holu niður í 100 m dýpi hófst í gær með jarðbornum Sögu frá Jarðborunum hf. og er þvermál fyrstu fóðringar tæpur 1 m. Næsti áfangi borunar er fyrirhugaður seinna á árinu og er gert ráð fyrir að borun fyrstu IDDP holunnar ljúki á næsta ári og verður holan síðan blástursprófuð.

Sem kunnugt er þá sameinuðust norsku olíufyrirtækin Statoil og Hydro á síðasta ári, og heitir orkuframleiðsluhluti fyrirtækisins nú StatoilHydro. Fyrirtækið starfar í yfir 40 löndum og er starfsmannafjöldi þess um 30.000 manns. StatoilHydro fæst ekki einungis við framleiðslu á olíu og gasi heldur starfar fyrirtækið einnig að þróun og hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið hefur m.a. tekið þátt í vetnisverkefninu hér á landi með aðild að Íslenskri Nýorku og er vetnis-áfyllingastöðin á Ártúnsholti t.d. frá þeim. StatoilHydro hafa verið leiðandi í olíuborunum á hafsbotni á norska landgrunninu og víðar, með háþróaðri bortækni. Því er ljóst að íslenska djúpborunar-verkefninu er mikill fengur að fá StatoilHydro til liðs við sig.

Fyrsta djúpborunarholan verður boruð niður í 4-5 km dýpi við Kröflu á árunum 2008-2009, sem að ofan greinir, en jafnframt verða boraðar tvær aðrar holur, önnur á Hengilssvæðinu og hin á Reykjanesi. Að djúpborunarverkefninu standa Hitaveita Suðurnesja hf., Landsvirkjun, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur, Alcoa Inc. og StatoilHydro ASA, sem nú hefur bæst í hóp þeirra sem fjármagna rannsóknarþátt verkefnisins. Auk framangreindra aðalfjármögnunaraðila leggja ICDP (International Continental Scientific Drilling Program) og bandaríski vísindasjóðurinn NSF (National Science Foundation) fram um 300 milljónir króna til töku borkjarna til vísindarannsókna í tengslum við IDDP. Fjöldi innlendra og erlendra jarðhitasérfræðinga og jarðvísindamanna munu taka þátt í rannsóknunum og munu flestir erlendu sérfræðinganna sjálfir afla fjár til rannsókna sinna. Auk þess hefur Evrópusambandið veitt stóran styrk til þróunar og smíði borholumælitækja sem nýtt verða í djúpu holunum og loks hefur RANNÍS komið að vísindasamstarfinu. 

Orkufyrirtækin þrjú, Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja hf. og Orkuveita Reykjavíkur, munu láta bora hvert sína holu niður í um 3,5-4,0 km dýpi og er kostnaður við hverja þeirra áætlaður á bilinu 700-1.000 milljónir króna. Síðan nær samstarf allra fyrirtækjanna þriggja auk Orkustofnunar, Alcoa og StatoilHydro til vísindaþáttar verkefnisins en í þeim þætti felst dýpkun Kröfluholunnar í um 4,5 km dýpi, kjarnataka á bergi, prófanir á borholuvökva, blástursprófanir og tilraunaorkuver. Áætlaður kostnaður við þennan þátt í Kröfluholunni einni er um 1.000 milljónir króna í viðbót við áðurnefndan borkostnað. Í heild er því áætlað að verja um 3.500 milljónum króna til djúpborana og rannsókna þeim tengdum á næstu 3-4 árum til viðbótar við um 150 mkr sem þegar hefur varið í margvíslegan undirbúning allt frá árinu 2000.

Með djúpborunarverkefninu er gerð tilraun til að hefja nýjan kafla í nýtingu háhitasvæða. Vonast er til að djúpu holurnar geti orðið allt að 5-10 sinnum öflugri en venjulegar háhitaholur, og gefið allt að 40-50 MW rafafl hver. Slíkur árangur gæti leitt til aukinnar hagkvæmni á nýtingu háhitasvæða víða um heim. Þó er rétt að vara við of mikilli bjartsýni því allmörg ár munu líða þar til árangur af verkefninu kemur í ljós.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu IDDP: http://www.iddp.is/.

Myndin er af jarðbornum Sögu við forborun fyrstu IDDP holunnar í Kröflu.

Birt:
20. júní 2008
Uppruni:
Landsvirkjun
Tilvitnun:
Samstarfshópur um IDDP djúpborunarverkefnið „StatoilHydro gengur til liðs við djúpborunarverkefnið“, Náttúran.is: 20. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/20/statoilhydro-gengur-til-lios-vio-djupborunarverkef/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: