Arnbjörg Jóhannsdóttir og Ólafur Óskar Egilsson eru sveitabörn í húð og hár, bæði ættuð úr Biskupstungum í Árnessýslu. Í lok síðasta árs komu þau tískuverslun á laggirnar í miðbæ Reykjavíkur sem nefnist Borgarpakk, en þar sérhæfa þau sig í sölu á vistvænum fatnaði. Verslunin opnaði í nóvember og ber heldur óvenjulegt heiti, sem festist þó vel í minni. „Okkur finnst við vera „landsbyggðarpakk“ og við viljum að „borgarpakkið“ hugsi um náttúruna og jörðina. Því fannst okkur þetta heiti sniðugt og ögrandi,“ segir Ólafur, en þau Arnbjörg ólust upp á svipuðum slóðum og eru gamlir skólafélagar.

Hvorugt þeirra kemur úr heimi fatahönnunar eða tískugeiranum og því er framtak þeirra eftirtektarvert. Arnbjörg er hárgreiðslunemi en Ólafur er lærður margmiðlunarhönnuður frá Danmörku. „Ég hef búið og unnið í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í San Fransisco, en miklir möguleikar eru þar í borg varðandi allt sem kallast lífrænt og náttúrulegt. Þar komst ég fyrst í kynni við náttúruleg föt og það hafði áhrif á ákvörðun okkar Arnbjargar,“ útskýrir Ólafur og segir jafnframt að þau hafi hvorugt haft bakgrunn í fyrirtækjarekstri þegar þau byrjuðu með verslunina. „Þetta byrjaði á því að okkur langaði að verða viðskiptafólk, gera eitthvað sniðugt og stofna fyrirtæki. Við ákváðum að einblína á vistvænan fatnað til að fylla upp í skarð sem hér var. Það eru margir sem selja vistvænar vörur, en lítið var um fatnað. Við finnum það líka hjá viðskiptavinum að þeir eru mjög ánægðir með þennan nýja valmöguleika,“ segir Ólafur.

Í versluninni má finna fatnað úr bómull, bambus og hampi en að auki eru þar seldar föndraðar bækur og prjónaðar grifflur sem móðir Ólafs, Kolbrún Ósk Sæmundsdóttir á Hjarðarlandi, gerir. „Þetta er allt náttúruvænn fatnaður, sem við flytjum aðallega inn frá Hollandi og einnig eru vörumerki frá Bandaríkjunum, sem eru til dæmis framleidd úr kínverskum bambus. Einnig flytjum við inn frá sænskum hönnuðum í Svíþjóð og íþróttabambusvörur frá London, svo þetta er fjölbreytt,“ segir Ólafur og bætir við: „Þrátt fyrir að vera mjúkur og þægilegur er bambus sterkt efni. Það er náttúrulegur bakteríueyðir í bambusnum, þannig að svitalykt sem kemur vanalega af bolum eftir 3-4 mánuði og festist jafnvel í þeim gerist ekki með bambusbolina.

Við vorum að selja hér sokka og leiðbeiningarnar með þeim voru, að það ætti ekki að koma lykt í þá þótt maður væri í þeim í þrjár vikur! Einnig seljum við fatnað úr lífrænni baðmull og hampi. Það sem hampurinn hefur fram yfir aðra þræði er að hann er einn sá sterkasti í fatnað og það þarf ekkert af áburði eða skordýraeitri til að rækta hann, því þetta er svo sterk planta. Að auki er verslunin í samstarfi við fyrirtækið Græna hlekkinn, þar sem bændurnir á Akri í Ölfusi selja lífrænar vörur og er Borgarpakk eins konar starfsstöð fyrir það í miðbænum, þar sem viðskiptavinir ná í sínar pantanir.“

Efri myndin er af bambus, sú í miðið af hampi og úlpa úr hampi er neðst til hægri.

Birt:
1. mars 2008
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Erla Hjördís Gunnarsdóttir „Vistvænn fatnaður úr baðmull, bambus og hampi“, Náttúran.is: 1. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/01/vistvaenn-fatnaour-ur-baomull-bambus-og-hampi/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: