Íslensk stjórnvöld leggja höfuðáherslu á að samstaða náist á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Balí í Indónesíu um gerð ný s samkomulags sem feli í sér skuldbindingar fyrir öll helstu losunarríki heims. Þetta kemur fram í minnisblaði sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi í dag að tillögu ráðherrahóps um loftslagsmál sem í sitja Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

Losun minnki um 25-40% fyrir 2020

Í Balí hefst samningaferli sem lýkur í Kaupmannahöfn árið 2009 en þar þarf að komast að samkomulagi um annað skuldbiningartímabil samningsins sem hefst þegar Kyoto-bókunin fellur úr gildi áramótin 2012 og 2013.

Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar þarf samkomulagið að taka mið af tilmælum vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um að koma þurfi í veg fyrir að hlýnun lofthjúps jarðar fari yfir 2°C frá því sem var fyrir upphaf iðnbyltingar. Til að ná því markmiði þarf losun iðnríkjanna í heild að minnka um 25-40% fyrir 2020. Á sama tíma þarf samkomulagið að fela í sér að stærstu losendur í hópi þróunarlanda dragi úr vexti losunar.

Byggt verði á sveigjanleikaákvæðum 

Í minnisblaðinu sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun segir ennfremur að íslensk stjörnvöld leggi áherslu á að í þeim samingaviðræðum sem framundan eru verði áfram byggt á sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar, m.a. til þess að tryggja hagkvæmni aðgerða sem draga eiga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hafinn er undirbúningur þess að Ísland geti nýtt sér sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar, sem heimila ríkjum að afla sér losunarheimilda með kaupum eða þátttöku í verkefnum erlendis, m.a. með svokallaðri loftslagsvænni þróunaraðstoð eða þátttöku fyrirtækja í verkefnum sem stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa (Clean Development Mechanism – CDM).

Ísland hefur einnig verið meðal þeirra ríkja sem hvatt hefur til þess að svokölluð geiranálgun (sectoral approach) verði skoðuð í samningaferlinu með það fyrir augum að nýtt sé besta fáanlega tækni og aðstæður.

Ásamt aðgerðum til þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda telja íslensk stjórnvöld mikilvægt að styðja rannsóknir og tækniþróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa; bindingu kolefnis í jarðvegi og skógi; og geymslu kolefnis í jarðlögum.

Þá segir að endingu í minnisblaðinu að Ísland styðji aðgerðir sem miða að því að draga úr eyðingu regnskóga en talið er að eyðing skóglendis í þróunarríkjunum samsvari 20% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Myndin er af ríkisstjórn Íslands en hún samþykkti í dag minnisblað v. aðildarríkjaþings lofslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Birt:
4. desember 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Áherslur ríkisstjórnarinnar vegna loftslagsþingsins í Balí“, Náttúran.is: 4. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/04/aherslur-rikisstjornarinnar-vegna-loftslagsthingsi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: