Vegna frétta af bókun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, þar sem meintum ærumeiðingum umhverfisráðherra í ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi hreppsins er mótmælt, vill umhverfisráðuneytið koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri.

Bókun sveitarstjórnarinnar byggir að mati ráðuneytisins á misskilningi á einni efnisgrein í bréfi umhverfisráðherra. Má ef til vill rekja misskilninginn til þess að sveitarstjórnarmönnum hafi yfirsést að síðasta sögn efnisgreinarinnar er í viðtengingarhætti.

Sú efnisgrein í bréfi ráðherra sem sveitarstjórnin vísar til er svohljóðandi:

„Í framkomnum gögnum hafa komið fram upplýsingar um að sveitarstjórnarmenn hafi persónulega þegið aukagreiðslur frá Landsvirkjun vegna funda í sambandi við skipulagsgerðina sem ekki hafi verið færðar til bókar og að þær greiðslur hafi verið inntar af hendi í lok árs 2009. Að mati ráðuneytisins verður að telja slíka tilhögun ólögmæta við skipulagsgerð sveitarstjórnar eigi hún sér stað.“

Þarna vísar ráðuneytið til þess að í gögnum hafi komið fram það sama og var áberandi í umræðu um málið á sínum tíma - að einstaklingar hafi þegið greiðslur frá framkvæmdaraðila. Ráðuneytið leggur ekki mat á þær upplýsingar, enda eru þær ekki lagðar til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins í málinu. Hins vegar er talin ástæða til að nefna þetta og undirstrika þann lagaskilning að slíkar greiðslur stangist á við lög ef þær eiga sér stað. Ekki er kveðið upp úr með að þær hafi átt sér stað í þessu tilviki - þótt sveitarstjórnin hafi túlkað texta ráðuneytisins svo.

Birt:
4. febrúar 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Leiðrétting frá umhverfisráðuneyti“, Náttúran.is: 4. febrúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/02/04/leidretting-fra-umhverfisraduneyti/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. febrúar 2010

Skilaboð: