Græna blaðið - Hús og híbýli
Græna blað Húss og híbýla er komið í verslanir. Að þessu sinni er m.a. kíkt í heimsókn til Kolbrúnar Björnsdóttur grasalæknis og Ástu Arnardóttur jógakennara en hún er tilnefnd til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Þá bendum við einnig á skemmtilegar grænar bækur og vefsíður sem enginn má láta framhjá sér fara.
Grænn lífsstíll, vistvæn hönnun, endurvinnsla, sjálfbærni og fleiri umhverfisvæn hugtök verða sífellt meira áberandi og fannst ritstjórum blaðsins því kominn tími á nýtt Grænt blað en í sumar koma fyrsta Græna blað Húss og híbýla út. Ákveðið var samt að hafa umfjöllunina frekar á léttu nótunum og bent er á ýmsar grænar vörur, bækur, vefsíður og góð ráð gefin. Einnig er rennt yfir nytjamarkaði landsins en þeim hefur fjölgað mikið síðustu árin og njóta sífellt meiri vinsælda.
Umhverfisvæn þróun tekur á sig ýmsar myndir og hefur áhrif á strauma og stefnur. Til að mynda má sjá þessa þróun á veitingahúsum landsins þar sem sífellt fleiri eigendur kjósa að blanda saman gömlu og nýju í innréttingum og húsgögnum. Sömu sögu má segja um verslanir og er í því samhengi nærtækast að minnast á Vopnabúrið, sem opnað var nýlega á Granda í Reykjavík og fjallað er um í blaðinu. Eigendur verslunarinnar, hönnuðurinn Sruli Recht og listamaðurinn Megan Herbert, flökkuðu um yfirgefin byggingasvæði borgarinnar til að sanka að sér efnivið í innréttingar. Útkoman er kannski ekki allra en að einhverju leyti gott dæmi um sjálfbærni, þar sem efniviður sem er til staðar er endurnýttur.
Mörgum finnst tilhugsunin um að breyta lífsstílnum yfir í grænt ekki spennandi og jafnvel yfirþyrmandi. Það reynist þó auðveldara með hverjum deginum og gerist að einhverju leyti sjálfkrafa. Fyrirtækin og framleiðendurnir sem við verslum við keppast við að setja sér grænni viðmið, enda er það víða krafa samfélagsins og yfirvalda. Íslenskir hönnuðir láta ekki sitt eftir liggja í þessum efnum og teljum við upp í blaðinu nokkra vel heppnaða umhverfisvæna hluti eftir þá.
Í Græna blaðinu er kíkt í heimsókn til Kolbrúnar Björnsdóttur, sem hefur stigið græna skrefið til fulls. Kolbrún er grasalæknir og eigandi Jurtaapóteksins á Laugavegi. Hún flokkar og endurvinnur, hefur notað lífrænar taubleiur á börnin og þar fram eftir götunum. Kolbrún hefur í nokkurn tíma kynnt Íslendingum kosti náttúrulækninga og hefur haft áhuga á öllu sem viðkemur heilsu og náttúru frá unglingsaldri. Þá er einnig kítkt til Ástu Arnardóttur, jógakennara, náttúruverndarsinna og ferðamálafrömuðar. Hún hefur lóðsað fjöldann allan af fólki um hálendi Íslands undanfarin ár og er einmitt tilnefnd til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið.
Birt:
Tilvitnun:
Hús og híbýli „Græna blaðið - Hús og híbýli“, Náttúran.is: 28. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/28/graena-blaoio-hus-og-hibyli/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.