Þjóðarfuglinn - 1. tillaga
Nokkrar uppástungur hafa borist um að kominn væri tími til að velja „þjóðarfugl“ líkt og fyrir þremur árum þegar „þjóðarblómið“ var valið. Varla er þó hægt að gera upp á milli okkar mörgu núverandi þjóðargersema af fuglakyni en umræðan gæti orðið skemmtileg og alveg þess virði að stofna til fagurfræðilegra illdeilna í kringum mikilvægi fugla á mismunandi forsendum. Slíkar umræður segja auðvitað miklu meira um okkur mennina og hvernig sambandi okkar við náttúruna er háttað en um saklausa fuglana.
Náttúran bað fuglafræðinginn- og ljósmyndarann Jóhann Óla Hilmarsson að koma með tillögur og leggja til myndir af þeim fuglum sem hann teldi líklegasta sem þjóðarfugla. Hann valdi ellefu fugla og hér kemur fyrsti kandidatinn sem er æðarfugl en tekið skal fram að kynningarröðin er algeraleg óhlutdræg og valin af handahófi af ritsjóra. Náttúran mun síðan kynna fuglana koll af kolli í 11 daga og öllum er frjálst að leggja orði í belg, leggja til nýja fugla eða koma með rök fyrir því að þeir fuglar sem hér verða kynntir til leiks eigi „ekki“ eða „eigi“ að vera valdir þjóðarfuglar.
Líta má á þessa kynningu sem æfingu fyrir stóru keppnina sem að Náttúran leggur til að Fuglaverndarfélag Íslands standi sjálft fyrir.
Myndin er af blika. Ljósmynd: ©Jóhann Óli Hilmarsson
Sjá vef Fuglaverndarfélags Íslands.
Sjá nánar um æðarfuglinn á fuglavef Námsgagnastofnunar.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þjóðarfuglinn - 1. tillaga “, Náttúran.is: 9. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/09/jarfuglinn-1-tillaga/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. júní 2007