Fyrstu merki um lífræna þróun í dölum Borgarfjarðar:

Hraundís Guðmundsdóttir á Rauðsgili í Hálsasveit hefur nú fengið vottun Vottunarstofunnar Túns til söfnunar á villtum íslenskum plöntum samkvæmt alþjóðlegum reglum um lífrænar aðferðir. Vottunin nær til ræktaðs og óræktaðs landsvæðis á Rauðsgili sem nýtt verður í framtíðinni til söfnunar og ræktunar á ýmsum plöntum. En þær verða síðan hráefni til framleiðslu á lífrænum heilsuvörum, græðikremum og snyrtivörum. Vottorð þessu til staðfestingar hefur nú verið afhent.

Vottunin er enn ein vísbending um aukinn áhuga á því að hagnýta hina villtu, hreinu og ómenguðu jurtaflóru Íslands í samræmi við ströngustu staðla um lífrænar aðferðir og sjálfbæra þróun. Vottunin er einnig vitnisburður um að lífræn þróun er að skjóta rótum á nýjum svæðum landsins, en Rauðsgil er fyrsta framleiðslueiningin á Vesturlandi, allt frá Kjós að Reykhólasveit, sem tekur upp lífræna aðlögun.

Með vottun Túns er staðfest að aðlögun lands og umgengni um það uppfyllir alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra landnýtingu, söfnun jurta, og um skráningu og merkingar.

Við nýtingu landsins er þess sérstaklega gætt að söfnun fari fram fjarri mengandi starfsemi og að hún hvorki skaði framtíðar afkomu viðkomandi tegundar né raski tegundasamsetningu á svæðinu. Vottunin mun veita möguleika á því að hagnýta plönturnar við framleiðslu á ýmsum græði- og snyrtivörum.

Rauðsgil í Hálsasveit í Borgarfirði bætist nú í hóp nokkurra íslenskra aðila sem hafa fengið vottun Túns til sjálfbærrar söfnunar á afurðum villtrar náttúru landsins. Eins og áður segir er Rauðsgil fyrsta býlið á svæðinu frá Hvalfirði að Reykhólasveit sem tekur upp lífræna framleiðslu og fær til þess vottun.

Lífrænar afurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun, til pökkunar í neytendaumbúðir, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur um lífræna framleiðslu.
Birt:
3. apríl 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rauðsgil í Hálsasveit fær lífræna vottun“, Náttúran.is: 3. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/05/rausgil-hlsasveit-fr-lfrna-vott/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. maí 2007
breytt: 16. janúar 2008

Skilaboð: