„Gervitré“ sem fanga koldíoxíð gætu reynst vel
Vísindamaðurinnn sem fyrstur notaði orðasambandið „global warming“ um gróðurhúsaáhrif, Wallace Broecker, kom nýlega fram með þá tillögu að byggja milljónir „gervitrjáa“ til að hreinsa kolefni úr andrúmsloftinu.
Broecker sagði 20 milljónir slík „gervitré“ geta fangað allt það koldíoxíð sem losað er í Bandaríkjunum. Hvert slíkra trjáa yrði tæplega 17 metra hátt og með um 2,5 metra þvermál, en þau notast við sérstakt plastefni sem fangar koldíoxíð. „Ykkur kann að þykja þetta mikið, en við framleiðum 55 milljónir bíla á ári, svo að ef við virkilega viljum fanga koldíoxíð þá getum við það. Á 30-40 ára tímabili getum við auðveldlega framleitt 20 milljón tré,“ sagði Broecker.
Koldíoxíðið sem fangað yrði væri svo sett í vökvaform eða fast form og dælt ofan í jörðina. Broecker sagði að líklega yrðu gervitrén staðsett í eyðimörkum jarðarinnar. Hann tók jafnframt fram að hann gerði sér grein fyrir að hugmyndin nyti enn sem komið er ekki mikils fylgis. Vilji til að framkvæma eitthvað á borð við þessa hugmynd hans væri að vaxa í löndum á borð við Þýskaland og Bretland, en vandamálið sem þyrfti að leysa væri að fá meira fylgi við hana í löndum á borð við Kína, Indlandi og Brasilíu.
Birt:
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „„Gervitré“ sem fanga koldíoxíð gætu reynst vel“, Náttúran.is: 2. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/02/gervitre-sem-fanga-koldioxio-gaetu-reynst-vel-gaet/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.