Garðyrkjubændur eru verulega áhyggjufullir og þungt í þeim vegna ákvarðana um einhliða aðgerðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem skerða tekjur þeirra og auka jafnframt kostnað vegna raforkunotkunar. Eins og sagt hefur verið frá í Bændablaðinu var tilkynnt í byrjun desember síðastliðins að skerða þyrfti vísitöluhækkun samnings um beingreiðslur til framleiðenda tómata, gúrku og papriku. Þar í ofanálag óskaði ráðuneytið eftir samningum við garðyrkjubændur í lok desember, um að skerða niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði rafmagns. Skerðingin skyldi vera 30 prósent og meta garðyrkjubændur áhrif skerðingarinnar til 25% hækkunar á rafmagnskostnaði garðyrkjubænda. Rafmagn er annar stærsti útgjaldaliður garðyrkjubænda á eftir launum.

Í ályktun sem stjórn Sambands garðyrkjubænda sendi frá sér 30. janúar síðastliðinn kemur fram að garðyrkjubændur hafi verulegar áhyggjur af því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiði til gjaldýrota meðal garðyrkjubænda verði ekkert að gert. Enn fremur segir í ályktuninni: „Framleiðendur grænmetis og blóma geta ekki tekið á sig hækkun rafmangskostnaðar á sama tíma og tekjur þeirra eru skertar. Stjórnin SG krefst þess að ákvörðunum ráðuneytisins verði breytt og minnir í því sambandi á að aukin innlend framleiðsla hefur oft verið nefnd sem lausnin á yfirstandandi efnahagsvanda.

Niðurskurður leiðir til 50 prósenta samdráttar hjá framleiðendum skógarplantna
Þriðja aðgerðin sem beinist gegn rekstri garðyrkjubænda er að ákveðið hefur verið að ríkið dragi verulega úr framlögum sínum til skógræktarverkefna. Það mun bitna á framleiðendum skógarplantna og hefur þeim verið tjáð óformlega að þeir megi vænta 20 til 30 prósenta niðurskurðar á plöntukaupum á árinu af þessum sökum. Á næsta ári má búast við að niðurskurðurinn verð allt að 50 prósent. Í fyrrnefndri ályktun stjórnar Sambands Garðyrkjubænda kemur fram að fyrirtæki sem starfa við framleiðslu skógarplantna hafi fjárfest í búnaði til framleiðslunnar vegna fyrirhugaðra áætlana um stórfellda skógræktun á komandi árum. Niðurskurðurinn kallar margvísleg vandamál yfir skógarbændur auk tekjumissis. Þá segir í ályktuninni: „Stjórnin telur að ástæða sé til þess að óttast að aðgerðar ríkisstjórnarinnar leiði til verulegra erfiðleika og jafnvel gjaldýrota meðal framleiðenda skógarplantna. Stjórn SG krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði fjárveitingar til skógræktar.“

Garðyrkjubændur undrandi og reiðir
Garðyrkjubændur funduðu á Selfossi 5. febrúar síðastliðinn þar sem framsögumenn voru þau Þórhallur Bjarnason formaður Sambands garðyrkjubænda, Katrín Ásgrímsdóttir skógræktarbóndi og Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Á fundinn mættu hátt í fjörutíu manns og lýstu þeir miklum áhyggjum af stöðunni.

Bjarni Jónsson framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda segir að garðyrkjubændur séu verulega reiðir yfir þessum skerðingum. „Það kom fram á fundinum að menn höfðu skilning á skerðingunni á aðlögunarsamningnum og gátu sætt sig við hana sem hluta af átaki til að vinna að endurreisn efnahagslífsins. Hins vegar skilja menn alls ekki hvers vegna skerðingum á niðurgreiðslu á flutningskostnaði rafmagns er bætt ofan á og garðyrkjubýli þar með látnir taka á sig meiri byrgðar en önnur fyrirtæki í landinu.“

Bjarni segir að það sé veruleg mótsögn í aðgerðum stjórnvalda. „Á sama tíma og menn tala fjálglega um mikilvægi þess að framleiða sem mest innanlands og auka virðisauka sem verður til hér innanlands þá skera menn niður til greinarinnar með þessum hætti. Ef þessar ákvarðanir standa er verið fórna miklu meiri hagsmunum fyrir minni. Þessar greinar, bæði garðyrkjan og ekki síður skógræktin, eru mannaflsfrekar greinar og á tímum fjöldaatvinnuleysis er mér óskiljanlegt að það skuli skorið niður með þessum hætti“

Fótunum kippt undan greininni
Bjarni segir að garðyrkjubændur hafi lagt í verulega hagræðingu á síðustu árum og það sé gríðarlegt högg þegar allt í einu er kippt undan þeim fótunum í því kerfi sem þeir hafa unnið í og miðað við í sinni
uppbyggingu. „Það getur auðvitað ekki gengið og það er alveg ljóst að ef fer fram sem horfir þá lendir fjöldi bænda í verulegum rekstrarerfiðleikum, mjög verulegum. Við höfum fundað með aðilum málsins og bíðum eftir fleiri fundum, meðal annars með nýjum landbúnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég trúi bara ekki öðru en að menn sjái að sér og dragi úr þessu. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að framleiða vörur, ekki síst matvæli innanlands og ég trúi því að menn sjá villuna í þessum aðgerðum.“

Eins og kemur fram í viðtali við nýjan landbúnaðarráðherra, Steingrím J. Sigfússon, annars
staðar í Bændablaðinu hefur hann lofað að fara yfir stöðuna með grænmetisbændum. Hann er þó ekki bjartsýnn á að hægt sé að snúa við ákvörðunum um skerðingu. „Mér er alveg ljóst að þetta eru miklir erfiðleikar og við verðum að skoða það mál. Við megum ekki missa þessa dýrmætu grein út úr höndunum á okkur á sama tíma og menn réttilega segja að þessar þrengingar hafi sannað mikilvægi þess að hafa þessa matvælaframleiðslu hér. Hvaða aðgerða hægt er að grípa til er hins vegar vandséð, ekki síst í ljósi þess að það er trúlega ekki auðvelt að sækja þetta til orkufyrirtækjanna eins og staða þeirra er nú. Ég get því engu lofað nema því að ég mun fara yfir þetta mál,“ sagði Steingrímur.

Myndin er af Þórði á Akri í einu gróðurhúsa sinna. Ljósmynd:Guðrún Tryggvadóttir.


Birt:
16. febrúar 2009
Höfundur:
fr
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
fr „Rafmagnskostnaður eykst um 25%“, Náttúran.is: 16. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/16/rafmagnskostnaour-eykst-um-25/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: