Óbeisluð vatnsföll eru ekki vannýtt auðlind
Með framburði vatnsfallanna, ekki síst jökulánna berst gríðarmikil og margbreytileg efni til sjávar. Allt bendir til þess, að sá framburður hafi mikil áhrif á næringarefnainnihald sjávarins og þar með á allt lífríkið úti fyrir ströndum landsins einkum þó á þeim svæðum sem liggja næst ósum ánna.
Mat á áhrifum vatnsfalla á lífríki sjávarins undan ósum þeirra á að vera mikilvægur þáttur í umhverfismati vegna stíflubygginga og virkjana í ám. Lífríki sjávarins umhverfis Ísland er einmitt ein mikilvægasta lífæð þjóðarinnar. Það er á grunnsævinu sem klak flestra nytjafiska okkar ræðst.
Þess vegna tel ég að ekki eigi að ráðast í frekari vatnsafls virkjanir fyrr en áhrif stíflugerðar og stöðvun framburðar ánna hefur verið rannsökuð til hlítar. Það er auðvelt að meta og hafa skoðanir á sýnilegum áhrifum virkjana á landi. Áhrif þeirra á hafið og lífríki þess eru ekki jafn augljós. Þau verða ekki metin nema með tæknilegum aðferðum. Þessi áhrif geta þó haft mun meiri efnahagslegar afleiðingar en nokkurn órar fyrir.
Þá eiga rannsóknir á áhrifum stíflna og uppistöðulóna á framburð næringarefna og lífríki sjávar að vera sjálfsagður liður í vöktun á því.
Áhrif þriggja gljúfra stíflunnar í Kína
Í mars 2006 skrifaði undirritaður grein í Morgunblaðið þar sem vitnað var í grein í New Scientist eftir Jessicu Marshall um áhrif Þriggja gljúfra stíflunnar í Kína á lífríki og fiskveiðar í Austur Kínahafi. Þar hrundu fiskistofnar nánast strax eftir að stíflan var tilbúin og var það m.a. rakið til þess að framleiðni kísilþörunga hrundi vegna þess að tekið var fyrir kísilríkan framburð til sjávar. Einnig var rennsli árinnar jafnað svo árviss flóð komu ekki og því myndaðist ekki næringarríkur strandsjór á vorin með sama hætti og áður. Hafsvæðið var vaktað og umhverfisáhrifin því metin meðan á byggingu stíflunnar stóð.
Aswan stíflan í Níl
Annað þekkt dæmi er áhrif Aswan stíflunnar í Níl, sem er á landamærum Egyptalands og Súdan, á bæði landbúnað á óshólmasvæðum árinnar og á sardínuveiðar Egypta í Miðjarðarhafi, en hvort tveggja á nú undir högg að sækja vegna tilkomu stíflunnar. Næringarefnin falla út í Nasser vatni, sem er uppistöðulón virkjunarinnar og rennsli árinnar er jafnað. Nú verða bændur á óshólmasvæðinu að reiða sig á áveitukerfi, en það hefur aftur á móti valdið vaxandi seltustyrk í jarðvegi og þannig hefur frjósemin minnkað. Einnig hefur eiturefnanotkun aukist. Árleg flóð í ánni skoluðu jarðveginn og báru með sér frjósaman framburð, sem nú kemst ekki lengra en í Nasser vatn. Afleiðingin er sú að bæði landbúnaður og fiskveiðar í og undan ósum Nílar hafa dregist saman. En Egyptar geta hvorki losað sig við stífluna né lifað í sátt við hana. (Heimild: bókin Water e. Marq de Villiers).
„Vatnsföll og vistkerfi strandsjávar“
Því ber að fagna þeirri ákvörðun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Vatnamælinga Orkustofnunar að hefja rannsóknir á áhrifum vatnsaflsvirkjana á lífríki sjávarins umhverfis landið, en greint var frá því í kvöldfréttum RÚV 29. júní 2008. Rannsóknunum verður stjórnað af Jóni Ólafssyni haffræðingi. Í síðasta hefti Náttúrufræðingsins er góð grein eftir hann, Sólveigu Rósu Ólafsdóttur og Jóhannes Briem sem kallast „ Vatnsföll og vistkerfi strandsjávar“ . Í greininni rekja þau mikilvægi strandsjávarins, sem myndast við blöndun við ferskt árvatn á grunnsævinu við landið. Hvernig uppleyst næringarefni sem nýtast plöntusvifi berast með árvatninu út í strandsjóinn og eflir þannig lífkerfi grunnsævisins. Mikilvægustu tegundirnar í plöntusvifinu eru kísilþörungar, en þeir þurfa mikið af kísil til að dafna og verða að lífmassa sem nærir fæðukeðjuna frá smásæju dýrasvifi upp í nytjastofnana. Í greininni er einmitt rakið hver áhrif Þjórsár eru á þetta næringarefnaflæði til sjávar og á fæðukeðjuna. Rannsóknir á þessu samhengi eru því mjög tímabærar og undarlegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi skuli ekki hafa krafist þeirra fyrir löngu.
Skoðið ósa Þjórsá á Google.com.
Myndin hér að ofan er tekin við Þjórsá nálægt gömlu Þjórsárbrúnni þ. 18. júní 2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Valgeir Bjarnason „Óbeisluð vatnsföll eru ekki vannýtt auðlind“, Náttúran.is: 11. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/10/obeisluo-vatnsfoll-eru-ekki-vannytt-auolind/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. júlí 2008
breytt: 11. júlí 2008